Að minnsta kosti þrír hafa látist í afar hörðum mótmælum í Senegal vegna ákvörðunar Macky Sall forseta um að fresta forsetakosningum í landinu. Þá eru að minnsta kosti 60 særðir. Meðal þeirra látnu er sextán ára gamall drengur. Blaðamenn hafa verið handteknir og beittir ofbeldi við vinnu sína við að flytja fréttir af ástandinu.
Fréttir hafa borist af óhóflegri valdbeitingu og ofbeldi yfirvalda gegn mótmælendum. Að minnsta kosti 271 var handtekinn í mótmælum helgarinnar. Mannréttindavaktin, Human Rights Watch, greinir frá. Öryggislögregla réðst gegn hundruðum mótmælenda í höfuðborginni Dakar með skothríð, bæði byssukúlum og gúmmíkúlum var beitt. Þá var táragassprengjum skotið að mótmælendum af stuttu færi.
Kosningarnar áttu að fara fram eftir ellefu daga, 25. febrúar en Sall frestaði þeim í upphafi mánaðarins, fram í desember. Netsamband hefur verið rofið í landinu og mótmæli bönnuð. Skipuleggjendur mótmælanna hafa frestað þeim en það kemur samt ekki í veg fyrir að almenningur mótmæli á görtum úti.
Sameinuðu þjóðirnar lýsa miklum áhyggjum yfir ástandinu í landinum, sem lýst er sem því versta á áratugi. Franska utanríkisráðuneytið hefur hvatt til að forsetakosningar fari fram svo fljótt sem verða má til að ekki sjóð endanlega upp úr í landinu.