Að minnsta kosti 71 kosningastarfsmaður er látinn af örmögnun eftir kosningarnar þar í landi 14. febrúar síðastliðinn. Kosningarnar eru hinar langstærstu í heiminum sem fara fram á aðeins einum degi.
Samkvæmt upplýsingum sem indónesísk stjórnvöld hafa veitt, veiktust um 4.000 kosningastarfsmenn á milli 14. og 18. febrúar vegna ofþeytu og örmögnunar eftir störf sín við kosningnarnar.
Ekki er nýtt að starfsfólk veikist eða látist jafnvel við störf að kosningum í Indónesíu. Svo margir sem ríflega 500 starfsmenn létust eftir kosningar í landinu árið 2019. Eftir það settu stjórnvöld á aldurstakmörk og skyldubundnar heilsuskoðanir, en það virðist ekki hafa dugað til nú.
Alls voru fimm milljónir manns ráðnar til að manna 800 þúsund kosningastaði í kosningunum í síðustu viku. Kjörfundur stóð í um sex klukkustundir en eftirvinnsla, talning og yfirferð stóð í mörgum tilfellum í yfir hálfan sólarhring til viðbótar. Yfir 200 milljónir voru skráðir á kjörskrá en kosið var um forseta landsins, varaforseta og þingmenn á landsþingi og héraðsþingum.
Varnarmálaráðherra Indónesíu, Prabowo Subianto, hefur lýst yfir sigri í forsetakosningunum, byggt á óstaðfestum bráðabirgðatölum. Niðurstaðan verður hins vegar ekki opinberlega kunngjörð fyrr en 20. mars.