Atkvæðagreiðsla um boðun verkfalls VR á Keflavíkurflugvelli hefst á mánudag

Kjaramál 7. mar 2024

Samninganefnd VR samþykkti á fundi sínum í fyrrakvöld að efna til atkvæðagreiðslu um verkföll meðal félagsfólks VR sem starfar í farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Um er að ræða starfsfólk Icelandair sem sinnir meðal annars innritun, töskumóttöku, brottförum og þjónustu vegna týnds farangurs fyrir Icelandair og fleiri flugfélög. Starfsfólkið starfar eftir sérkjarasamningi Icelandair sem tekur breytingum samhliða aðalkjarasamningi VR og SA og er því undir í yfirstandandi kjaraviðræðum.

VR, fyrir hönd starfsfólksins, hefur um langa hríð reynt að knýja á um breytingar á kjörum þessa hóps, en einnig á fyrirkomulagi vinnunnar sem sker sig úr íslensku kjarasamningsumhverfi. Um helmingur þeirra ríflega 150 sem starfa við farþegaafgreiðslu Icelandair er gert að lækka starfshlutfall sitt yfir vetrarmánuðina úr 100% í 76% og nýtur ekki sjálfsagðs réttar til samfellds vinnutíma. Fólk sem sinnir störfum tengdum flugi í Keflavík vinnur alla jafna á 12 tíma vöktum. Starfsfólk í farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair mætir hins vegar til vinnu að vetri milli 5 og 9 að morgni, er síðan sent heim og gert að mæta aftur til vinnu milli 13 og 17. Þetta er óviðunandi vinnufyrirkomulag og mikilvægt að ná fram leiðréttingu á því.

Sérkjarasamningur við Icelandair er eitt af þeim atriðum sem standa út af í kjaraviðræðum VR og SA. Önnur atriði lúta meðal annars að launalið, forsenduákvæðum og ýmsum kjara- og réttindamálum. Það er von samninganefndar VR að samningar takist um þessi atriði og að ekki þurfi að koma til verkfalla. Hins vegar hefur gangur viðræðna leitt til þess að samninganefnd telur nauðsynlegt að kanna vilja félagsfólks sem starfa við farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli til vinnustöðvunar.

VR auglýsti í dag atkvæðagreiðsluna á vef sínum og hefst hún klukkan 09:00 mánudaginn 11. mars 2024 og lýkur klukkan 12:00 á hádegi fimmtudaginn 14. mars 2024. Atkvæðagreiðslan fer fram á vef félagsins.

Vinnustöðvunin felur í sér að störf skuli lögð niður (verkfall) sem hér segir:

  • Frá kl. 00:01 föstudaginn 22. mars 2024 til kl. 23:59 sunnudaginn 24. mars 2024.
  • Frá kl. 00:01 miðvikudaginn 27. mars 2024 til kl. 23:59 fimmtudaginn 28. mars 2024.
  • Frá kl. 00:01 sunnudaginn 31. mars 2024 til kl. kl. 23:59 þriðjudaginn 2. apríl 2024.
  • Frá kl. 00:01 föstudaginn 5. apríl 2024 til kl. 23:59 þriðjudaginn 9. apríl 2024.
  • Ótímabundin vinnustöðvun frá kl. 00:01 föstudaginn 12. apríl 2024.

Gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun verði auglýst á morgun, fimmtudag, og að atkvæðagreiðsla hefjist nk. mánudag kl. 9.00 og standi í þrjá daga. Verði vinnustöðvun samþykkt er gert ráð fyrir að verkföll hefjist föstudaginn 22. mars nk.

Úr fréttum af vef VR.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí