Samkvæmt verðlagseftirlit Leigjendasamtakanna hefur húsaleiga á áttatíu til eitt hundrað fermetra íbúðum á höfuðborgarsvæðinu hækkað að jafnaði um sextíu og þrjú þúsund krónur á mánuði frá því í apríl í fyrra eða um 22%. Er hækkun á mánaðarlegri húsaleigu hátt í þrefalt meiri en sú launahækkun sem verkafólk hjá Eflingu fékk við síðustu kjarasamninga. Þrátt fyrir að samið hafi verið um hækkun bóta fyrir þá sem fá húsnæðisbætur þá stendur eftir umfangsmikil kjaraskerðing launafólks á leigumarkaði.
30 – 40.000 króna kjaraskerðing
Launaflokkur 7 hjá Eflingu hækkaði um tuttugu og fjögur þúsund við síðustu kjarasamninga sem voru undirritaðir í byrjun mars síðastliðinn. Þannig er kjaraskerðing þess launafólks sem býr á leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu að jafnaði 30 – 40 þúsund krónur á mánuði. Þess ber þó að geta að Efling ásamt breiðfylkingu ASÍ samdi um hækkun húsnæðisbóta, en þær ná til um það bil fjörutíu og fimm prósent leigjenda. Var samið um 25% hækkun bótanna en upphæðir þeirra hafa verið þær sömu frá því í ársbyrjun 2023.
Eins og alþjóð veit þá hefur verðbólga verið á há og er enn. Þannig hefur verðgildi húsnæðisbóta því fallið stöðugt og vantar frá fjögur til sjö þúsund krónur uppá verðgildi hámarksbóta, en þær taka mið af mánaðarlegum tekjum, eignum og fjölskyldustærð. Á meðan að húsaleiga hækkar nánast alltaf að minnsta kosti samhliða verðbólgu vegna vísitölutengingar húsaleigusamninga þá dregur hinsvegar stöðugt úr verðgildi húsnæðisbóta.
Húsnæðisbætur hækka um 2 – 5.000 krónur síðar í ár
Að meðaltali er útgreiðsla húsnæðisbóta um 63% af hámarksupphæð. Þannig má reikna með að meðalhækkun húsnæðisbóta sem á að framkvæma síðar í ár verði á bilinu sex til ellefu þúsund krónur á mánuði. Raunhækkun bótanna verður þó ekki nema brot af þeirri upphæð því eins og áður sagði hefur verulega dregið úr verðgildi. Því er ljóst að raunhækkun húsnæðisbóta verður að meðaltali varla meira en tvö til fimm þúsund krónur á mánuði þegar hún kemur til framkvæmda.
Á meðal félagsmanna Eflingar eru einungis þrjátíu og sex prósent þeirra í eigin húsnæði, helmingurinn er á óregluvæddum einkamarkaði en fjórtán prósent í foreldrahúsum, félagslegu leiguhúsnæði eða hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum. Fyrir þá félagsmenn Eflingar sem eru á óregluvæddum leigumarkaði hér á höfuðborgarsvæðinu þá er kjaraskerðing uppá nokkra tugi þúsund króna á mánuði í kjölfar kjarasamninga staðreynd. Frá árinu 2011 hafa allar kjarabætur verkafólks hjá Eflingu ásamt hækkun húsnæðisbóta aldrei náð að dekka hækkun á húsaleigu, fyrir utan árin 2019 og 2020 en það þýðir að lífskjör og fjárhagsleg staða þessa hóps fer stanslaust versnandi.
Húsaleiga 70-80 % af launum verkafólks hjá Eflingu
Meðalhúsaleiga á 80 – 100 fermetra íbúð á höfuðborgarsvæðinu er samkvæmt verðlagseftirliti Leigjendasamtakanna 352.000 krónur á mánuði. (Verðagseftirlitið fer þannig fram að skráðar eru á bilinu 3 – 400 auglýsingar um leiguhúsnæði á helstu netmiðlum einu sinni í mánuði og þær sorteraðar eftir stærð og staðsetningu.) Byrjunarlaun samkvæmt Launaflokki 7 hjá Eflingu er 433.440 krónur á mánuði. Þannig er húsaleiga á hefðbundinni fjölskylduíbúð á höfuðborgarsvæðinu kominn í áttatíu og eitt prósent af þeim launataxta, en sjötíu og eitt prósent hjá þeim sem búa svo vel að vera á hæsta taxta Eflingar þ.e. launaflokki 24 og með fimm ára starfsreynslu.
Í höfuðborgum hinna Norðurlandanna er hlutfall húsaleigu á samskonar húsnæði af launum lágtekjuhópa á bilinu 43-48%. Húsaleiga á höfuðborgarsvæðiniu er því um það bil áttatíu prósent hærri en í höfuðborgum hinna norðurlandanna ef tekið er mið af launastigi lágtekjuhópa.