Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði í gær að hann hefði engin áform um annað en að láta ísraelskan herafla ráðast inn í borgina Rafah. Það sagði hann þrátt fyrir viðvaranir Joe Biden Bandaríkjaforseta um að með því væri gengið yfir strikið.
Helgimánuðurinn Ramadan hófst í gær en alþjóðasamfélagið hefur lagt þunga áherslu á að vopnahlé verði komið á á meðan hann stendur. Hins vegar er fátt sem bendir til þess að svo verði þar eð vopnahlésviðræður eru strand. Ísraelar höfðu áður varað við því að ef gíslar Hamas samtakanna á Gaza yrðu ekki látnir lausir í byrjun Ramadan mánaðar myndu þeir hefja árás á Rafah. Í borginni eru um 1,5 milljónir Palestínumanna á flótta undan árásarstríði Ísraela. Alþjóðasamtök og hjálparstofnanir hafa varað við því að innrás af landi inn í Rafah myndi þýða skelfilegt blóðbað, ofan á þær hörmungar sem þegar hefðu dunið á Palestínumönnum á Gaza.
Netanyahu lýsti því að hernaðaraðgerðir í Rafah myndu ekki standa lengur en í tvo mánuði, án þess að gefa upp frekari tímasetningar. Hann vísaði þá einnig á bug yfirlýsingum Bidens Bandaríkjaforseta þess efnis að hann væri að skaða Ísrael með því að takmarka ekki mannfall almennra borgara á Gaza.
Embættismenn í Ísrael sögðu í dag að þrátt fyrir yfirlýsingar Netanyahu væri árás á Rafah ekki yfirvofandi. Enn ætti eftir að safna saman herliði sem þörf væri á til að ráðast á borgina og þá væri ekki búið að útfæra áætlanir um leiðir til að rýma Rafah af almennum borgurum. Þá hefði ísraelska ríkisstjórnin enn ekki skrifað undir áætlanir sem herinn hefði lagt fram, bæði um brottflutning og innrás.