Yfirvöld í Pakistan fluttu í síðustu viku yfir fimm þúsund flóttamenn frá Afganistan aftur yfir landamærin til nágrannalandsins. Á sjötta hundrað þúsund Afganir hafa þar með verið reknir frá Pakistan og fluttir aftur til heimalandsins, þar sem ógnarstjórn Talibana ræður ríkjum. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur lýst miklum áhyggjum af brottflutningnum en flóttafólksins býður hvorki atvinna né húsaskjól í afgönskum vetrarkuldum.
Brottflutningarnir hófust í október á síðasta ári, en þá tilkynntu stjórnvöld að öllum óskráðum innflytjendum í landinu yrði brottvísað. Afganir eru þar lang stærsti hópurinn. Talið er að um fjórar milljónir Afgana hafi verið í Pakistan á síðasta ári, þar af um 1,7 milljónir óskráðir inn í landið. Yfirvöld í Pakistan sögðu brottflutningana nauðsynlega til að stemma stigu við aukin áhrif hryðjuverkahópa í landamærahéruðunum. Bæði Bandaríkjastjórn og Talibanastjórnin í Kabúl vöruðu hins vegar við að brottflutningarnir gætu leitt til frekari öfgahyggju.
Pakistönsk yfirvöld settu á laggirnar um fimm tugi brottvísunarbúða þar sem óskráðum innflytjendum hefur verið safnað saman, og eru aðstæður þar sagði ómannúðlegar. Radio Free Europe greindi frá því í janúar að pakistanska utanríkisráðuneytið hefði sagt að þá þegar hefðu 541 þúsund Afganir farið úr landi og til Afganistan. Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna hefur lýst því að yfir 15 milljónir Afgana muni búa við hungur í landinu í vetur.
Margir Afgananna sem búa í Pakistan, skráðir sem óskráðir, hafa búið í Pakistan í áratugi, allt frá því þeir flýðu land á áttunda áratugnum í stríðinu við Sovétmenn. Hafa yfirvöld heitið því að þeir sem rétt eru skráðir í landinu verði ekki fyrir barðinu á brottvísunum en hins vegar hafa borist frásagnir um að svo hafi engu að síður verið. Fjöldi Afgana sem hafa verið rétt og sannarlega skráðir sem íbúar í Pakistan hefur af þessum sökum flúið frá Pakistan, þó ekki til Afganistan, af ótta við ofsóknir yfirvalda.
Sem fyrr segir segja pakistönsk yfirvöld brottflutningana hluti af áætlun til að berjast gegn hryðjuverkaógn. Sumir greinendur hafa hins vegar bent á að með brottflutningunum sé fækkað í hópi þjóðernishóps Pastúna, sem margir Afganir eru hluti af, en leyniþjónusta pakistanska hersins lítur á Pastúna sem aðskilnaðarsinna sem ógni þjóðaröryggi.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Pakistanar hefja fjölda brottflutning Afgana frá landinu. Árið 2016 fluttu þau um 600 þúsund Afgana úr landi. Á þeim tíma sögðu mannréttindasamtökin Human Rights Watch að um væri að ræða „fjölmennasta, ólögmæta þvingaða brottflutning flóttafólks á síðari tímum“.