Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson, sakborningarnir í hryðjuverkamálinu svokallaða, voru fyrr í dag sýknaðir af ákæru um skipulagningu hryðjuverka. Sindri Snær og Ísidór voru fyrstir Íslendinga til að vera ákærðir fyrir undirbúning hryðjuverka. Hefðu þeir verið dæmdir fyrir þann lið ákærunnar hefðu þeir átt yfir höfði sér langa fangelsisvist, þar sem refsiramminn í hryðjuverkaákvæðum hegningarlaga er þungur.
Báðir voru þó sakfelldir fyrir vopnalagabrot. Fyrir það brot hlaut Sindri Snær 24 mánaða dóm og Ísidór Nathansson 18 mánaða dóm. Varla er hægt að tala um fangelsisdóm, því hvorugur þeirra mun þurfa að afplána dóm sinn í fangelsi.
Þeir sem fá dóm á Íslandi undir tveimur árum geta afplánað í samfélagsþjónustu. Ætla má að báðir muni nýta sér það. Rétt er að taka fram að meðan rannsókn stóð yfir sátu þeir í ellefu vikur í gæsluvarðhaldi. Sá tími verður dreginn frá refsingunni.
Líkt og fyrr segir áttu þeir yfir höfði sér langa fangelsisvist, allt að ævilöngu fangelsi, svo afplánun í samfélagsþjónustu hlýtur að teljast vel sloppið.