„Fyrir páska gefur hún út að hún sækist eftir embætti forseta Íslands. Stórlaxarnir sem hafa verið að máta sig draga sig í hlé. 1. júní næstkomandi verður Katrín Jakobsdóttir kjörinn forseti Íslands.“
Þetta segir Sjálfstæðismaðurinn Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, á vef sínum en hann er einn af mörgum sem telja sig sjá skýr merki um að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sé á leið í forsetaframboð. Eitt slíkt merki er mynd sem Katrín birtir af sér og eiginmanni sínum á Facebook, líkt og Samstöðin fjallaði um fyrr í dag.
Vísbendingar um framboð hennar eru þó enn fleiri að sögn Elliða:
- „Í fyrirspurnum um málið á Alþingi hefur Katrín viljandi verið afar loðin í svörum.
- Við gerð kjarasamninga steig Katrín inn með 80 þúsund milljónir frá ríkinu og gjaldfrjálsar skólamáltíðir fyrir börn í grunnskólum. Blaðamannafundur um samninga voru eins og afmælisveislan hennar.
- Þegar tækifæri gefst til minnir hún á hið þjóðlega og hin gömlu góðu gildi. Setti til dæmis plokkfisk, rúgbrauð, kjötsúpu, fisk og sitthvað fl. á vikumatseðilinn sinn í viðtali við moggann fyrir skömmu.“