Þetta eru helstu atriði kjarasamnings Eflingar og SA

Kjaramál 8. mar 2024

Efling undirritaði í gær, ásamt Samiðn og Starfsgreinasambandinu, langtímakjarasamning við Samtök atvinnulífsins. Efling fagnar undirritun samningsins, sem felur í sér bætt kjör og réttindi Eflingarfélaga næstu fjögur árin. Samningurinn rennur út í lok janúar 2028.

Samningurinn gildir frá 1. febrúar að gefnu samþykki félagsfólks í atkvæðagreiðslu. Atkvæðagreiðsla verður auglýst sérstaklega innan skamms. Undirritaðan samning Eflingar og SA er að finna í PDF skjali hér. Undirritaðan Stöðugleika og velferðar kjarasamning Breiðfylkingarinnar við SA má finna í PDF skjali hér.

Launahækkanir

Á samningstímanum munu launataxtar Eflingarfélaga hækka um samtals 95 til 107 þúsund krónur sem jafngildir tæplega 24% hækkun yfir 4 ár. Hlutfallsbil milli launaflokka og starfsaldursþrepa í launatöflu Eflingar halda sér út samningstímann.

Laun þeirra sem eru fyrir ofan töflur hækka á samningstíma um 14,5% en þó aldrei um minna en 95.000 kr.

Hækkanir dreifast svona yfir samningstímann:

  • Febrúar 2024: Lágmark 23.750 kr. eða 3,25%
  • Janúar 2025: Lágmark 23.750 kr. eða 3,50%
  • Janúar 2026: Lágmark 23.750 kr. eða 3,50%
  • Janúar 2027: Lágmark 23.750 kr. eða 3,50%
  • Samtals: lágmark 95.000 kr. eða 14,5%

Unnið er í samantekt sem sýnir breytingar á launatöflum og töxtum Eflingar yfir samningstímann og verður hún birt innan skamms.

Verulegar hækkanir á skattfrjálsum bótum

Til viðbótar við launahækkanir felur kjarasamningurinn í sér verulegar kjarabætur frá hinu opinbera fyrir barnafólk, leigjendur og skuldsetta. Þetta er einn helsti ávinningur samningsins og var meginmarkmið Eflingar og samflotsfélaga í kjaraviðræðunum frá upphafi.

Þessar kjarabætur koma í formi aukinna skattfrjálsra bóta úr millifærslukerfum hins opinbera, niðurfellingar á gjaldi fyrir skólamáltíðir barna og takmörkunar á gjaldskrárhækkunum ríkis og sveitarfélaga.

Efling fagnar því innilega að náðst hafi að snúa við áratuga rýrnun opinberra tilfærslukerfa, sem hafa lengi verið líflína íslenskra barnafjölskyldna.

Hér er yfirlit um helstu atriðin í framlagi hins opinbera:

  • Skólamáltíðir í grunnskólum verða gerðar gjaldfrjálsar frá upphafi næsta skólaárs. Fyrir einstakling með tvö grunnskólabörn er þetta ígildi um 40 þúsund króna launahækkunar. Einhver sveitarfélög hafa ekki staðfest þátttöku sína, en t.d. Reykjavíkurborg mun gera máltíðirnar gjaldfrjálsar. 
  • Húsnæðisbætur til leigjenda munu hækka um 25% auk sérstakrar viðbótarhækkunar fyrir fjölskyldur með 3 eða fleiri börn. Þessi breyting kemur til áhrifa 1. júní 2024.
  • Barnabætur munu hækka um 6% og dregið verður úr skerðingum úr 5% í 4%.
  • Vaxtastuðningur í formi eingreiðslu verður greidd á árinu 2024. Upphæð  vaxtastuðningsins verður allt að 150 þúsund krónur fyrir barnlausan einstakling, 200 þúsund fyrir einstætt foreldra og 250 þúsund fyrir hjón. Upphæðina má nýta til lækkunar á höfuðstóli láns eða mánaðarlegra afborgana yfir visst tímabil, eftir vali hvers og eins.
  • Gjaldskrár sveitarfélaga og ríkis munu, með nokkrum undantekningum, lækka í tilvikum þar sem liðir hækkuðu umfram 3,5% um síðustu áramót, og ríki og sveitarfélög munu halda öllum hækkunum innan við 2,5% á árinu 2025.
  • Reglun leigumarkaðar verður komið á með nýju lagafrumvarpi sem áformað er að samþykkja á vorþingi 2024. Það felur í sér hömlun á hækkunum leiguverðs og styrkta stöðu leigjenda í fleiri atriðum.

Efling mun á næstunni deila meira kynningarefni sem sýnir ávinning þessara breytinga með myndrænum hætti.

Forsendur um verðlag og hagþróun

Samningurinn er byggður á þeirri forsendu að verðbólga og þar með vextir náist hratt niður. Þetta er ein mikilvægasta kjarabót samninganna til viðbótar við launahækkanir og aukningu á skattfrjálsum bótum hins opinbera.

Hafi verðbólga ekki lækkað niður fyrir tiltekið mark á umsömdum dagsetningum, og ekki náðst samkomulag við SA um hvernig það skuli bætt, verður heimilt að segja samningnum upp á tveimur tímapunktum á samningstímanum. Einnig verður heimilt að segja samningi upp hafi stjórnvöld ekki staðið við yfirlýsingar sínar varðandi endurreisn bótakerfa og önnur atriði.

Einnig er forsenduákvæði sem tryggir að taxtalaun dragist aldrei aftur úr launavísitölu vegna launaskriðs hærra launaðra hópa. Þá eru forsenduákvæði sem tryggja hlutdeild launafólks í aukinni framleiðni hagkerfisins fari hún yfir visst mark.

Tímaröðun endurskoðunarákvæða er svona:

2025: Kauptaxtar skulu hækka sjálfkrafa 1. apríl til samræmis við launavísitölu, hafi hún hækkað umfram kauptaxta Eflingar.

Hafi 12 mánaða verðbólga í ágúst ekki lækkað niður fyrir 4,95%, eða hafi stjórnvöld ekki staðið við fyrirheit skv. yfirlýsingu, verður heimilt að segja samningi upp þannig að hann falli úr gildi 31. október.

2026: Sömu fyrirvarar varðandi kauptaxta og 2025.

Laun hækka um vissa prósentu 1. apríl hafi framleiðni í hagkerfinu aukist umfram 2% og ekki verið efnahagssamdráttur á undangengnu ári.

Hafi 12 mánaða verðbólga í ágúst ekki lækkað niður fyrir 4,7% verður heimilt að segja samningi upp þannig að hann falli úr gildi 31. október. 

2027: Sömu fyrirvarar varðandi kauptaxta og framleiðni og árið 2026.

Fullur texti forsenduákvæðanna er í texta undirritaðs samnings sem lesa má hér.

Efling fagnar jafnframt góðum árangri í mikilvægum réttindamálum félagsfólks á vinnustað, sem má finna í nýjum og lagfærðum kjarasamningsákvæðum.

Samninganefnd Eflingar fagnar undirritun samningsins.

Réttindi í vinnu

Þar má nefna nýjan undirkafla 7.6 sem styrkir rétt starfsmanns sem leggur fram athugasemd við atvinnurekanda vegna aðbúnaðar eða öryggis á vinnustað. Samkvæmt ákvæðum kaflans er atvinnurekanda óheimilt að láta starfsmann gjalda þess í starfi að hafa komið með slíka ábendingu. Jafnframt ber atvinnurekanda að bregðast við og upplýsa starfsmann um framgang málsins.

Þá eru ákvæði varðandi störf og réttindi trúnaðarmanna styrkt verulega. Heimilt verður að kjósa þrjá trúnaðarmenn á vinnustöðum með meira en 120 félagsmenn, en frá upphafi lagasetningar um trúnaðarmenn hefur aðeins verið hægt að kjósa tvo trúnaðarmenn að hámerki á hverjum vinnustað óháð stærð. Einnig mælir nýtt ákvæði fyrir um að trúnaðarmaður og atvinnurekandi skuli gera samkomulag um þann tíma sem trúnaðarmaður hafi til að sinna störfum sínum. Þá er námskeiðsseturéttur trúnaðarmanna aukinn úr 5 dögum í 10 á seinna ári skipunartíma og verða trúnaðarmenn sem vinna vaktavinnu tryggðir gegn launatapi sökum námskeiðssetu.

Aukin orlofsréttindi

Í samningunum eru orlofsréttindi félagsfólks aukin. Allir Eflingarfélagar sem hafa unnið í 6 mánuði eða lengur í starfsgrein og eru eldri en 22 ára fá nú 25 daga lágmarksorlof, en orlof þeirra var áður 24 dagar.

Þá lengist orlofsréttur þeirra sem unnið hafa í 5 ár hjá fyrirtæki. Var hann áður 25 dagar en lengist í tveimur þrepum upp í 28 daga.

Efling fagnar þessari mikilvægu kjarabót fyrir verkafólk sem getur nú notið fleiri orlofsdaga.

Tímamótaleiðrétting á kjörum ræstingafólks

Í samningnum náðist mikilsverður árangur í því að bæta kjör ræstingafólks. Var þetta sameiginlegt baráttumál Eflingar og Starfsgreinasambandsins, sem Samiðn studdi jafnframt dyggilega.

Til viðbótar við aðrar umsamdar hækkanir samningsins mun ræstingafólk sem starfar undir 22. kafla aðalkjarasamnings hækka úr launaflokki 6 í launaflokk 8. Það þýðir að í lok samningstíma munu grunnlaun ræstingafólks hafa hækkað um allt að 6 þúsund krónur umfram aðrar launahækkanir, og skilar sú viðbótarhækkun sér inn í vakta- og yfirvinnuálög.

Þá kemur til viðbótar sérstakur ræstingaauki að upphæð 19.500 kr. á mánuði miðað við fulla vinnu. Ræstingaaukinn bætist við laun frá og með ágústlaunum 2024, og verður sér lína á launaseðli sem hækkar ekki vakta- eða yfirvinnuálög. Þetta er svipuð útfærsla og launaleiðréttingin vegna sögulega vanmetinna kvennastarfa sem Efling samdi um við Reykjavíkurborg árið 2020.

Mánaðarlaun ræstingastarfsmanns með 5 ára starfsreynslu í fullu starfi munu í september 2024 hafa hækkað um að minnsta kosti 48.500 krónur, og samanlagt um meira 125.000 kr. á samningstíma.

Einnig kemur inn ný grein sem skýrir skilgreininguna á tímamældri ákvæðisvinnu, en brögð hafa verið að því að launafólk fái ekki greitt 20% álag sem fylgja á slíkri vinnu. Nýja greinin styrkir stöðu ræstingafólks til að sækja rétt sinn gagnvart fyrirtæki.

Þá voru heimildir til vinnustaðaeftirlits útvíkkaðar til ræstingafyrirtækja.

 Taxtahækkun strax2 lfl. frá 1. febrúarRæstingarauki frá 1. ágústSamtals
Byrjunarlaun24.027 kr.5.013 kr.19.500 kr.48.540 kr.
Eftir 1 árs starf í starfsgrein24.266 kr.5.064 kr.19.500 kr.48.830 kr.
Eftir 3 ára starf í starfsgrein24.631 kr.5.140 kr.19.500 kr.49.271 kr.
Eftir 5 ár í sama fyrirtæki25.124 kr.5.242.kr.19.500 kr.49.866 kr.

Breytingar á hótel- og veitingasamningnum

Gerðar eru breytingar á samningi Eflingar við SA um störf á hótelum og veitingahúsum.

Allir félagsmenn sem starfa á hótelum og veitingahúsum munu hækka um a.m.k. 1 launaflokk. Skilgreiningin á sérþjálfuðum starfsmenni er útvíkkuð þannig að starfsmaður sem var í launaflokki 5 getur hækkað um flokk til viðbótar, eða upp í launaflokk 7. Launaflokkur 4 er aflagður, þannig að allir sem voru í honum fara að lágmarki upp í launaflokk 6.

Vaktaálag vegna starfa á skemmtistöðum frá miðnætti til klukkan 5 að morgni á aðfararnótt laugardags og sunnudags hækkar úr 45% í 55%.

Á móti kemur að samkvæmt breytingum kaflans verður yfirvinna ekki greidd fyrr en starfsmaður hefur unnið 173,33 klst. á mánuði. Yfirgnæfandi meirihluti starfsfólks undir kaflanum vinnur í vaktavinnu og verða því fáir fyrir áhrifum af þessari breytingu.

Jafnframt eru heimildir auknar til að semja innan vinnustaðar um upptöku jafnaðarálags að gefnu samþykki stéttarfélags og starfsfólks í atkvæðagreiðslu á grunni 5. kafla samningsins.

Orlofs- og desembætur uppfærðar

Orlofs- og desemberuppbætur uppfærast og verða þannig:

Orlofsuppbót​Desemberuppbót​
202458.000​106.000
202560.000​110.000
202662.000​114.000
202764.000​118.000​

Efling mun á næstu dögum birta frekara kynningarefni og auglýsa atkvæðagreiðslu um samninginn meðal félagsfólks.

Fréttin er af vef Eflingar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí