„Ég hef stundum sagt við ungar konur, sem eru að stíga sín fyrstu skref, að ef þeim finnst þær ekki hafa ráð á að leggja neitt fyrir eða setja í fjárfestingar, þá geti þær byrjað á að sleppa því að fara út á lífið eina helgi í mánuði. Og notað svo þann pening í að kaupa bréf eða setja í sjóð. Í kauphöllinni geturðu til dæmis keypt eitt bréf í félagi og það kostar ekkert mikið. Það er ákveðin byrjun!“
Þetta eru skilaboð Guðbjargar Eddu Eggertsdóttur, fyrrverandi forstjóra Actavis á Íslandi, til ungra kvenna á Íslandi. Þetta kemur fram í nokkurs konar viðtali við hana sem Arion banki birtir á vef sínum. Í raun má segja að viðtalið sé auglýsing eða kynning með það að markmiði að sannfæra almenning um að kaupa hlutabréf í Kauphöll Íslands.
Guðbjörg Edda reynir þó ekki að draga fjöður yfir það að slík fjárfesting er ekki svo ósvipuð „fjárfestingu“ í spilavíti. Sumir græða helling meðan aðrir tapa öllu í næstu kreppu. Í það minnsta viðurkennir Guðbjörg Edda að oft er ekki meira að baki ákvörðun um að kaupa ákveðin hlutabréf en góð tilfinning.
„Það er dálítið mikið bara gut feeling – einhver tilfinning. Ég hef aldrei haft neitt gaman af því að fjárfesta í ríkisskuldabréfum eða einhverju svoleiðis, og hef fyrst og fremst haft áhuga á félögum sem eru, eða ætla sér, í heilbrigðisgeirann. Af því að ég hef mest vit á því sviði. Þar finnst mér ég geta metið hvort um er að ræða hugmynd sem náð getur einhverri markaðshlutdeild.“