Fimm kínverskir verkamenn og pakistanskur bílstjóri þeirra létust í sjálfsmorðssprengjuárás í norðvestanverðu Pakistan í gær. Þetta er þriðja hryðjuverkaárásin sem gerð er í Pakistan á viku. Pakistanski herinn og ríkisstjórnin segja árásirnar tilraunir til að rjúfa náin tengsl landsins við Kína.
Árásin var gerð með þegar verkamennirnir voru á leið til vinnu frá höfuðborginni Islamabad til Dasu stíflunnar í Khyber Pakhtunkhwa héraði. Árásarmaðurinn keyrði á bíl verkamannanna með þeim afleiðingum að bæði ökutæki sprungu í loft upp. Enginn hefur lýst ábyrgð á hryðjuverkinu á hendur sér.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hryðjuverkaárás er gerð á kínverska verkamnn á leið til vinnu við Dasu stífluna, fyrir þremur árum var rúta með verkamenn á leið til vinnu sprengd í loft upp með þeim afleiðingum að þrettán manns létust, þar af níu kínverskir verkamenn. Enginn lýsti ábyrgð á þeirri árás heldur.
Pakistan er náið bandalagsríki Kína og lykilleikandi í Braut og beltis verkefni Kínverja. Kínverjar hafa fordæmt árásina harðlega. Í yfirlýsingu kínverska utanríkisráðuneytisins sem gefin var út í dag er farið fram á að Pakistanar rannsaki málið gaumgæfilega án tafar, leiti uppi þá sem ábyrgir eru og hegni þeim. Þá eru pakistönsk stjórnvöld hvött til að grípa til róttækra aðgerða til að tryggja öryggi kínverskra borgara í landinu.
Pakistanar hafa glímt við aukið ofbeldi og árásir frá hryðjuverkahópum og vígamönnum eftir að Talibanar tóku völdin að nýju í Afganistan árið 2021. Talibanar í Pakistan hafa hins vegar lýst því að þeir beri enga ábyrgð á árásinni í gær.
Frelsisher Balochistan hefur lýst ábyrgð sinni á hinum hryðjuverkaárásunum tveimur sem gerðar hafa verið á síðustu dögum í suðvestur Pakistan. Andúð á Kína er mjög verulega meðal aðskilnaðarsinna í Balochistan héraði og lýsti Frelsisherinn ábyrgð sinni á árás sem gerð var á ræðismannsskirfstofu Kína í Karachi í nóvember 2018. Fjórir létust í árásinni þá.