Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í gær að hernaðaraðgerðir Ísraela, undir forystu Benjamins Netanyahu forsætisráðherra, á Gaza væru mistök. Hvatti hann Ísraela til að að stöðva stríðið og kalla eftir vopnahléi. Biden lýsti því að hugur hans væri með Gazabúum, nú þegar Eid al-Fitr hátíðahöldin eiga að hefjast til að marka lok helgasta mánaðar múslima, Ramadan. Ekkert lát er á vargöld Ísraela á Gaza og í nótt létust fjórtán manns í loftárás á ísraelska hersins á Nuseirat flóttamannabúðirnar. Flest hinna látnu er konur og að minnsta kosti fjögur börn voru drepin.
„Ég skal segja þér að ég held að hann sé að gera mistök. Ég er ósammála nálgun hans,“ sagði Biden í viðtali á Univision sjónvarpsstöðinni og átti þar við Netanyahu. Tónninn í Biden hefur harðnað mjög varðandi Netanyahu og framferði Ísraela á Gaza síðustu vikur og ummælin nú, sem eru þau afdráttarlausustu sem Biden hefur látið frá sér fara, bætast við sífellt harðari gagnrýni á árásarstríð Ísraela á Gaza á alþjóðavettvangi.
Netanayahu sagði í gær að „engin öfl í heiminum öllum“ gætu komið í veg fyrir árás á Ísraelshers á borgina Rafah af landi. Forsætisráðherran hefur lýst því að búið sé að dagsetja þá árás en hefur ekki gefið upp hvenær af henni eigi að verða, hvorki opinberlega né í samræðum við fulltrúa Bandaríkjastjórnar, að því er utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken, lýsti í gær. Nokkru áður en viðtalið við Biden var sent út í gær lýstu talsmenn stjórnar Biden því að yfirlýsingar Netanyahu um að árás á Rafah hefði verið dagsett væru fyrirsláttur og pólitík notuð til heimabrúks.