Í morgun, laust fyrir klukkan níu, greindi Samstöðin frá því að yfir sjö þúsund manns hefðu skrifað undir yfirlýsingu á Ísland.is um að viðkomandi afþakkaði vinnuframlag Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, vegna vantrausts. Nú, um klukkan fjögur, sjö tímum síðar, hafa ellefu þúsund í viðbót skrifað undir yfirlýsinguna.
Samtals hafa nú 18 þúsund Íslendingar skrifað undir yfirlýsinguna. Varla sólarhringur er liðinn síðan tilkynnt var að Bjarni tæki við sem forsætisráðherra af Katrínu Jakobsdóttur. Oft hefur verið talað um að Kári Stefánsson hafi safnað flestum undirskriftum Íslandssögunnar, eigi metið. Yfir áttatíu þúsund Íslendingar skrifuðu undir undirskriftasöfnun hans árið 2016 þar sem skorað var á ráðamenn hér á landi að auka fjárframlög til heilbrigðismála.
Með öðrum orðum þá hefur undirskriftarsöfnunin gegn Bjarna náð fjórðungi af því meti á einungis sólarhring. Á móti kemur að lítil hefð er fyrir því á Íslandi að stjórnmálamenn taki mark á undirskriftarsöfnunum. Söfnun Kára hafði lítið að segja og framlag til heilbrigðisþjónustu lækkaði í stað þess að hækka. Sjálfur sagði Kári nokkrum árum síðar:
„Mér virðist sem alþingismönnum og stjórnmálamönnum á Íslandi sé andskotans sama hvað fólkið í landinu vill. Hins vegar virðist þetta benda til að fólkið í landinu sé dálítið vitlaust að kjósa þetta fólk aftur og aftur.“
Hér má svo finna undirskriftarsöfnunina.