Framsóknarflokkurinn myndi aðeins ná einum fulltrúa í borgarstjórn, miss þrjá, ef niðurstöður kosninga yrðu í takt við nýja könnun Maskínu. Og Vg myndi missa sinn eina fulltrúa. Þetta tap er í anda þess sem gengur yfir þessa flokka í landsmálunum, þar sem 46% af kjósendum Framsóknarflokksins hafa yfirgefið hann og 56% kjósenda Vg samkvæmt nýjustu könnun Maskínu. Staðan í borginni er enn verri hjá Framsókn, 76% kjósenda hafa yfirgefið flokkinn frá kosningum. Niðurfall Vg er ekki eins mikið hlutfallslega en enn verra í reynd, því flokkurinn myndi missa sinn eina borgarfulltrúa.
Án efa spilar inn í stöðu þessara flokka að þeir eru í ríkisstjórn sem fáir styðja. Kjósendum þessara flokka finnst þeir fórna of miklu af stefnu sinni og hugsjónum í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Sem er sérstakur flokkur. Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn en hann rekur á sama tíma stefnu sem er gegn vilja mikils meirihluta þjóðarinnar. Þeir flokkar sem kjósa að vinna með Sjálfstæðisflokknum eru því að velja að fara gegn vilja mikils meirihluta þjóðarinnar, nánast öllum nema innsta kjarna Sjálfstæðisflokksins.
En borgarfulltrúar Framsóknar og Vg bera auðvitað sök á veikri stöðu flokkanna. Það sést í könnun Maskínu þegar fólk er spurt um afstöðu til einstakra borgarfulltrúa. Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar, er aðeins valinn af 6,7% þátttakenda og er í sjötta sæti þótt hann sé nú borgarstjóri. Dagur B. Eggertsson í Samfylkingu, Sanna Magdalena Mörtudóttir í Sósíalistaflokki, Hildur Björnsdóttir í Sjálfstæðisflokki, Kolbrún Baldursdóttir í Flokki fólksins og Alexandra Briem í Pírötum njóta öll meira trausts en sjálfu borgarstjórinn. Og Líf Magneudóttir er aðeins nefnd af 0,5% þátttakenda.
Ef niðurstaða Maskínu yrðu kosningaúrslit yrði staðan þessi í borgarfulltrúum talið (innan sviga er breyting frá kosningum):
Meirihlutinn:
Samfylkingin: 7 fulltrúar (+2)
Píratar: 3 fulltrúar (+/-0)
Viðreisn: 2 fulltrúar (+1)
Framsókn: 1 fulltrúi (-3)
Meirihlutinn alls: 13 fulltrúar (+/-0)
Minnihlutinn:
Sjálfstæðisflokkur: 6 fulltrúar (+/-0)
Sósíalistar: 2 fulltrúar (+/-0)
Flokkur fólksins: 1 fulltrúi (+/-0)
Miðflokkurinn: 1 fulltrúi (+1)
Vg: enginn fulltrúi (-1)
Minnihlutinn alls: 10 fulltrúar (+/-0)