Úkraínustjórn hefur lækkað herskyldualdur úr 27 árum og niður í 25 ár. Það er gert í viðleitni til að stoppa í þau göt sem orðið hafa í her landsins á þeim ríflega tveimur árum sem liðin eru frá því að árásarstríð Rússa hófst.
Lög sem heimiluðu lækkun herskyldualdurs voru samþykkt af úkraínska þinginu í maí á síðasta ári en Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti undirritaði þau ekki fyrr en í gær, og tóku lögin gildi í dag. Engar skýringar hafa verið gefnar á því hversu langan tíma Zelensky tók sér í að undirrita lögin og hann hefur ekki tjáð sig um undirskriftina opinberlega.
Úkraínsk yfirvöld hafa ekki gefið upp hversu mikillar fjölgunar er að vænta í herliði landsins með nýju lögunum. Í október á síðasta ári taldi úkraínski herinn um 800 þúsund hermenn að því er varnarmálaráðuneyti landsins greindi frá. Í þeim tölum er ekki tekið tillit til varaliðs og heimavarnarliðs en allt í allt mun um ein milljón manns vera undir vopnum í Úkraínu.
Herskylda í Úkraínu hefur verið viðkvæmt umræðuefni síðustu mánuði, í ljósi mannfalls sem og skorts á skotfærum, en hvoru tveggja er sagt hafa fært frumkvæðið á vígvöllunum yfir í hendur Rússa. Hins vegar glíma Rússar sjálfir við skort á herliði og það auk skipulagsvandræða hafa komið í veg fyrir að þeir hafi nýtt sér það frumkvæði að ráði.
Meðalaldur úkraínskra hermanna er talinn vera um 40 ár, líkt og er í her Rússa. Raddir eru uppi í Úkraínu sem lýsa áhyggjum af því að verði tveir árgangar vinnandi fólks teknir í herinn muni það hafa slæm áhrif á efnahag landsins, sem er í nægum sárum fyrir vegna stríðsins. Hins vegar er talið að Zelensky telji sig vart eiga annarra kosta völ nú í ljósi þess að Úkraínumenn undirbúa sig undir sumarsókn sína.
Í desember síðastliðnum lýsti Zelensky því að úkraínski herinn vildi auka við herafla sinn um allt að hálfa milljón hermanna til viðbótar. Hann sagði hins vegar einnig að hann hefði kallað eftir frekari skýringum frá yfirmönnum hersins um þörfina og hvað slík herkvaðning myndi innibera áður en hann féllist á slíkt, enda væri um „mjög viðkvæmt mál“ að ræða. Zelensky sagði þá einnig að slík aukning í fjölda myndi kosta Úkraínu fjármuni að jafngildi tæplega 1.900 milljarða króna.
Sagt er að þörfin fyrir slíka herkvaðningu hafi verið eitt af ágreiningsmálum þeim sem urðu til þess að Zelensky vék yfirhershöfðingja úkraínska hersins, Valerii Zaluzhnyi, frá störfum í febrúar síðastliðnum.