Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir forsetaframbjóðandi segir að Ísland sitji uppi með handónýta ríkisstjórn sem einbeiti sér að sérhagsmunum en ekki almannahagsmunum.
Hún segist hafa fengið miklar skammir í framboði sínu þar sem hún hafi vogað sér að standa fyrir pólitískri umræðu. Það þyki glæpsamlegt að frambjóðendur ræði stjórnmál fyrir forsetakosningar.
Þetta kom fram við Rauða borðið á Samstöðinni í gær. Steinunn Ólína ræddi meðal annars skoðanakannanir sem sýni að um fjórir af hverjum fimm landsmönnum vilji ekki þá sem séu efstir í skoðanakönnunum.
„Þjóðin hefur í þessum stóra hópi frambjóðenda ekki fundið neitt forsetaefni sem hún sem hópur getur sameinast um,“ segir hún.
Þetta sé umhugsunarefni og spyrji stórra spurninga. Ef forseti sé sameiningartákn hljóti forseti að vera sú manneskja sem geti fundið út hvað þjóðin vilji raunverulega á tímum stjórnarkreppu. Íslendingar hafi þurft að sætta sig við hið óásættanlega.
Forseti geti ákveðið að samþykkja engin lög frá óvinsælli stjórn eins og ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sé til marks um. Steinunn Ólína kallar ríkisstjórn Bjarna „ógnarstjórn“ sem lúti ráðherraræði og duttlungavaldi.
Þjóðin eigi að fara með æðsta vald samkvæmt lögum um forseta. Ef þjóðin vilji losna við ríkisstjórn geti hún nýtt forsetann til að skrifa ekki undir lög. Hún gæti hugsað sér að vera slíkur forseti ef þjóðin vill það.
Þannig sé hægt að losna við ríkisstjórnir sem fæstir vilji að sitji. Sem dæmi vilji hún ekki skrifa undir lög sem varða framsal náttúruauðlinda. Þjóðin vilji fá auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána.
Í raun ríki stjórnarkreppa þar sem forsetinn þurfi að verja þingræðið. Það geri hann með því að sjá til þess að í landinu sé þing sem þjóðin geti afborið.
Sjá umræðuna hér: https://www.youtube.com/watch?v=_XiNVo_mQXg&t=5s