Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður pírata, gerði svokallaðan örlætisgjörning Haraldar Johannesen fyrrum ríkislögreglustjóra að umræðuefni í fyrirspurnatíma á Alþingi í dag þar sem hlunnindi sem Haraldur tók upp til yfirmanna kosta skattgreiðendur hálfan milljarð króna.
Tveir ráðherrar studdu mál Haraldar á sínum tíma. Með breytingum sem urðu á lífeyrisréttindum lögreglustjóra vegna stjórnsýslu Haraldar tapar ríkissjóður 500 milljónum króna.
Þórhildur Sunna spurði dómsmálaráðherra hvort best væri að vísa málinu til rannsóknar þar sem stjórnsýsla hans kynni að vera brot á hegningarlögum. Hún spurði hvort ráðherra myndi óska eftir að héraðssaksóknari tæki málið til meðferðar þar sem mögulegt brot á hendur Haraldi yrði rannsakað.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra svaraði að mikilvægt væri að fara vel með almannafé af hálfu ríkisstofnana. Þar til bærum yfirvöldum væri sjálfsagt að fara í rannsókn ef grunur leiki á broti.
Sunna minnti í seinni ræðu sinni á að tilefni fyrirspurnar hennar væri að að kanna hvort dómsmálaráðherra ætlaði sér fyrir hönd ríkissjóðs að beita sér. Hún rifjaði upp orð Haraldar á sínum tíma að hann byggi yfir upplýsingum og hafa sumir túlkað þau ummæli þannig að Haraldur vissi hluti um aðra valdamenn sem mögulega gæti haft áhrif á vilja til aðgerða.
Guðrún svarað að hún sem ráðherra gæti ekki metið hvort saknæm háttsemi hefði átt sér stað og gaf ekkert fyrir að hún myndi beita sér í málinu.