Trymbillinn góðkunni, Einar Scheving, stillir mönnum eins og Guðmundi Andra Thorssyni og Biubba Morthens upp við vegg og spyr hvernig þeir geti varið stuðning við Katrínu Jakobsdóttur sem forsetaefni.
Einar spyr hvernig fólk sem talað hefur fyrir náttúruvernd og gegn spillingu getur, samvisku sinnar vegna, hvatt landsmenn í ræðu og riti til að Kjósa Katrínu.
Hann nefir að Katrín hafi leitt þá ríkisstjórn sem „gefur norskum auðmönnum frítt spil til að menga íslenska firði og náttúru að vild með fyrirsjáanlegum og ófyrirsjáanlegum afleiðingum.“
Þá hafi Katrín „ítrekað haldið verndarskildi yfir spilltasta stjórnmálamanni Íslandssögunnar“ og á Einar þar við Bjarna Benediktsson.
„Sem notaði auðvitað (og notar) tækifærið til þess að koma eigum og auðæfum þjóðarinnar til fjölskyldu og vildarvina – og hefur með sínu nýjasta útspili tryggt honum valdamesta embætti landsins.“
Þá segir Einar alrangt að Ísland hafi komið best þjóða út úr „Covid-geðveikinni“. Þvert á alla tölfræði um umframdauðsföll, fækkun fæðinga og fleira.
„Fróðlegt þætti mér að heyra frá nokkum af hinum opinberu stuðningsmönnum Katrínar af vinstri vængnum,“ skrifar Einar í færslu á facebook og taggar Kolbrúnu Halldórsdóttur, Guðmund Andra, Gerði Kristnýju og laxveiðimanninn Bubba Morthens.
Guðmundur Andri bregst við brýningu trommarans og segir meðal annars um ástæður þess að hann styðji Katrínu:
„Ég hef nefnt þrennt: hvernig hún muni reynast á alþjóðavettvangi sem fulltrúi og talsmaður Íslands; hvernig hún muni reynast þegar alvarlegir atburðir verða; og hvernig hún muni standa sig þegar stjórnarkreppa verður. Ég held að hún eigi eftir að standa sig vel í öllum þessum hlutverkum.“