Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að þegar fólk virði ekki tilmæli lögreglu dragi hún í efa að kalla megi mótmæli friðsamleg.
Ef lögreglan hefði ekki verið á staðnum síðastliðinn föstudag við Skuggasund hefðu ráðherrar hvorki komist á ríkisstjórnarfund né af honum.
Þetta kom fram á Alþingi í dag en ummælum ráðherra mótmælti Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður pírata harðlega í óundirbúnum fyrirspurnatíma.
Lögreglan sprautaði piparúða í miklum mæli í augu mótmælenda fyrir helgi. Vildi Þórhildur Sunna vita hvort Guðrún hefði ekki verið of fljót að tjá sig í fréttum um að ekkert væri að hennar mati athugavert við hörð viðbrögð lögreglu.
Þórhildur Sunna sagði að óhlýðni við lögreglu gæfi ekki lögreglufólki rétt til að ráðast að fólki. Þá sé rangt að ráðherrar hefðu ekki getað gengið síðasta spölinn þótt mótmælendur hefðu stöðvað bíla þeirra. Alvarlegt sé ef borgarar fái þau skilaboð þátttaka í mótmælum geti reynst þeim skaðleg, enda sé um að ræða lýðræðislegan rétt almennings sem beri að vernda.