Auglýsa stúdíó í kjallara á 210 þúsund – hvorki má þinglýsa né skrá lögheimili sitt

Leigufélagið Alma auglýsti nýverið til leigu 35 fermetra stúdíóíbúð í kjallara við Digranesveg í Kópavogi á litlar 210 þúsund krónur á mánuði. Alla jafna hefði verðlagið þótt fréttnæmt í sjálfu sér, enda gífurlega hátt verð fyrir stúdíóíbúð, sér í lagi í kjallara og langt fyrir utan vinsæl svæði í miðbænum eða Vesturbæ.

En nei, það sem vekur sérstaklega athygli að þessu sinni eru þær upplýsingar sem fylgdu í leiguauglýsingunni um að hvorki væri hægt að fá þinglýstan leigusamning fyrir íbúðina né færa lögheimili á íbúðina.

Auglýsingin sem um ræðir

Hvoru tveggja bendir til þess að íbúðin sé í raun ekki samþykkt hvað varðar byggingarstaðla. 

Umræða um auglýsinguna spratt upp í hópi leigjenda á Facebook, Umræðuhópur leigjenda, þar sem margir leigjendur eru forviða á verðlagi og þessum upplýsingum, en sér í lagi spyrja margir sig hvort að það sé löglegt að auglýsa slíka íbúð til leigu.

„Enginn samningur. Er verið að stinga undan skatti eða??“, spyr ein manneskja í umræðuhópnum. „Maður hefði haldið að leigufélög þyrftu að hafa löglegar íbúðir í útleigu, sem færu eftir öllum kröfum varðandi t.d. brunaöryggi og tryggingar.“

Önnur manneskja segir „svo mikið ógeð“ um leigufélagið. „Karma á eftir að bíta ölmu í rassin.. einn góðan veður dag er eg viss um..“, segir enn önnur.

Sjá má að ekki er um að ræða neina höll, heldur agnarsmáa kjallaraíbúð. Verðmiðinn er samt 210 þúsund krónur.

Þetta væri ekki í fyrsta skipti sem leigurisinn Alma auglýsir bæði okurleigu og undarleg skilyrði, enda fyrirtækið orðið alræmt fyrir löngu fyrir siðferðislega vafasama viðskiptahætti sína. 

Þegar fyrirtækið snarhækkaði leiguverð á öryrkja árið 2022 varð þannig í kjölfarið til sniðgönguhreyfing gegn fyrirtækinu og tengdum fyrirtækjum, sem almennir leigjendur, borgarar og Leigjendasamtökin hafa haldið á lofti.

Eins og áður hefur komið fram í umræðu um leigufélagið Ölmu þá er það í eign hóps hinna svokölluðu Mata-systkina; Eggerts Árna, Guðnýju Eddu, Halldórs Páls og Gunnars Þórs. Ásamt Ölmu eiga þau heildsölufyrirtækið Mata í viðskiptaveldi sem þau erfðu frá athafnamanninum Gísla V. Einarssyni, föður þeirra, sem var um áratugabil áhrifamikill maður í íslensku viðskiptalífi og sat í stjórnum opinberra fyrirtækja og banka svo dæmi séu tekin.

Veldi Mata-systkinanna inniheldur líka fyrirtækin Ali, Matfugl, Freyju og Salathúsið. Ásamt leigufélaginu Ölmu eru fyrirtækin öll sameinuð undir einn móðurfélagshatt í Langisjór ehf.

Fyrirtækin sem margir vilja sniðganga

Systkinin hafa greitt sér út marga milljarða í arð á undanförnum árum og verið gerð afturreka með ýmislegar ráðagerðir um að koma hagnaði sínum undan skatti í skattaskjólum erlendis. Heimildin rak sögu ættarveldisins ítarlega á síðasta ári og þar var um að ræða langa sögu fúsks og brasks þessara systkina.

Leigufélagið Alma er enn sem áður gríðarstórt á íslenskum leigumarkaði með um 1100 íbúðir í sínum fórum. Verðlag þeirra er afar hátt í almennu tilliti og hefur fyrirtækið verið leiðandi í hækkunum á almennu verðlagi leiguverða.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí