Á dögunum ákvað Sunna Valgerðardóttir, frétta- og dagskrárgerðarkona á RÚV, að söðla um. Hún sagði upp starfi sínu hjá RÚV og réð sig til starfa hjá þingflokki Vinstri grænna. Nú rétt ríflega mánuði síðar stefnir í að það starf sé í útrýmingarhættu en samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum þá mun flokkurinn ekki hafa neinn þingflokk eftir næstu kosningar, allt bendir til þess að Vg detti af þingi.
Sunna veltir þessari stöðu fyrir sér í pistli sem hún birtir á Facebook. „VG mælist með 3,3 prósenta fylgi í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup, rúmu prósentustigi minna en fyrir mánuði. Þetta er svo lág tala að hún telst varla með. Það þarf vart að taka fram að ef þetta yrðu niðurstöður kosninga fengi flokkurinn ekki eitt þingsæti. Ekki einu sinni stólbak. Það yrði í fyrsta sinn í 25 ára sögu flokksins sem Alþingi yrði samsett án Vinstri grænna. Samfylkingin þyrfti þá heldur betur að standa sig í skjaldborginni um vinstri málin. Nú, eða bara fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki. Það hefur alltaf reynst vel,“ skrifar Sunna.
Ólíkt mörgum Vg-liðum þá dregur Sunna ekki fjöður yfir það að ástæðan sé líklega gífurlega óvinsælt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Ef samstarf má kalla það er segja, enda einungis annar flokkurinn sem er reglulega niðurlægður, líkt og ítrekað hefur verið rætt síðustu ár. Sunna heldur áfram:
„Vinstri græn voru stofnuð á fjórum grunnstoðum. Sá kvartett samanstendur af félagslegu réttlæti, kvenfrelsi, friði og náttúruvernd. Þetta var flokkur sem umhverfisverndarsinnar, félagshyggjufólk, femínistar og friðarsinnar, þau sem almennt vildu öðru fólki og náttúrunni vel, gátu kosið með góðri samvisku. Stærð þessa hóps hefur verið alls konar á þessum aldarfjórðungi, allt frá 30 prósentum (eins og Samfylkingin er núna) og niður í það sem telst varla með (eins og núna). Ástæðurnar fyrir fylgistapinu eru líklega nokkrar, en þar sem ég hef gaman af flokkun og flokkum ætla ég að fullyrða að langstærstur hluti þeirra sem flutti atkvæði sitt annað gerði það vegna samstarfs VG og Sjálfstæðisflokksins og öllu því tengdu.“
Sunna viðurkennir einnig fúslega að þetta samstarf hafi fyrst og fremst verið hræðilegt fyrir Vg, þó hinir flokkarnir megi vissulega muna sinn fífil fegri. „Þessu ríkisstjórnarsamstarfi hafa fylgt alls konar mis-kræsilegar málamiðlanir, varnir og yfirlýsingar vegna hinna og þessa mála. Og þau hafa alveg verið nokkur, málin, síðustu sex ár: Landsréttur, brottvísanir, Ásmundarsalur, dómsmál, þyrluferð, lögregluofbeldi, Samherji, bankasala og svo mætti lengi telja. Og þó að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn hafi vissulega látið á sjá í þessu samstarfi, þá eru þeir enn langt frá því að detta út af þingi. Sé miðað við síðustu kosningar hefur Sjálfstæðisflokkurinn misst fjórðung fylgis síns. Framsókn hefur misst helming. VG hefur hins vegar misst 75 prósent. Og það er sennilega ekki vegna þess að matvælaráðherrar VG aðhyllast síður hvalveiðar. Nei. Það er vegna þess að flokkarnir, fólkið, sem VG átti að veita aðhald, gagnrýna og rífast við, urðu makkerar þeirra. Og það samstarf er að þurrka flokkinn út,“ skrifar Sunna.
Þrátt fyrir þetta uppgjör á samstarfinu þá talar Sunna enn um hinn alræmda Vg-ventil, þá kenningu að Vg hafi á einhvern hátt dregið úr hægrimennsku ríkisstjórnarinnar. Ekki er hægt að segja að sú hugmynd sé óumdeild enda segjast margir vinstrimenn engan ventil sjá. „Fólki sem er annt um náttúruna, fólk sem aðhyllist félagslegt réttlæti, femínisma og frið, virðist ekki finna skoðunum sínum lengur farveg hjá VG – vegna þess að VG vann með andstæðingunum. Ég vona af öllu hjarta að það samstarf verði þó ekki endanlegur banabiti flokksins, því ef það gerist verðum við fyrst í afskaplega vondum málum. Það er verið að teppaleggja grimmt fyrir öfluga hægrisveiflu út um allan heim og þar erum við sannarlega ekki eyland. En pastellitaðir hálsklútar eru sennilega meira sjarmerandi en lítt sýnilegur öryggisventill í ríkisstjórninni. Það væri nefnilega margt töluvert verra hér ef VG-ventillinn væri ekki til staðar. En það aflar engum fylgis,“ skrifar Sunna.
Hún telur lærdómin af þessu vera að samstarf við Sjálfstæðisflokkurinn sé stórhættulegt fyrir vinstrimenn. „Hvers vegna er eyðileggingarkraftur hægrisins svona öflugur? Hvers vegna laskast vinstrið svona mikið? Hvers vegna finnst okkur vinstrið halla sér að hægrinu, en aldrei öfugt? Kannski getur forsetaframboð Katrínar Jakobsdóttur varpað einhverju ljósi á það. Katrín var formaður VG í mörg, mörg ár. Hún var vinsælasti (og vinstrisinnaðasti) stjórnmálaleiðtogi landsins, almenningur vildi helst fá hana á Bessastaði samkvæmt allt of mörgum og gömlum skoðanakönnunum og henni gekk almennt vel í samskiptum við helstu leiðtoga þessa heims. Vinsæl og dáð. Límið í ríkisstjórninni, mannasættir, réttsýn og klár. En Katrín varð ekki forseti. Hún fékk ekki nógu mörg atkvæði,“ segir Sunna.
Hún kallar þó ekki eftir stjórnarslitum. „Hversu stór hluti þeirra sem kalla sig vinstrisinnuð ætli hafi sett X við Katrínu Jakobsdóttur? Ég spyr vegna þess að stuðningsfólk hennar spannaði nokkuð jafnt hið svokallaða pólitíska litróf. Þetta var framboð sem myndaðist þvert á flokka, á sitt hvorum endanum á hinum pólitíska ás og allt þar á milli. Svolítið eins og ríkisstjórnin. Eða ekkert svolítið, bara næstum eins. Nema Samfylkingin var líka með Katrínu, þar voru valdir hlutar fjórflokksins samankomnir. En það dugði ekki einu sinni til. 25 prósent setti X við Katrínu, þar af var hægrið líklega dágóður slatti. Reiði og vonbrigði vinstrisinnaðra kjósenda vegna samstarfs VG og Sjálfstæðisflokksins, sem á endanum kom Bjarna Benediktssyni í stjórnarráðið, endaði með því að verða einn veigamesti þátturinn í því að hægrisinnaður fulltrúi kapítalismans vann nokkuð sannfærandi sigur í baráttunni um Bessastaði. Vinstrið kann að vera vont við sig.“