Geta Sjálfstæðisflokksins til að standa undir grunngetu samfélagsins er í hættu þar sem fjárveitingar til lögreglu eru ónógar.
Þetta sagði Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar í óundirbúinni fyrirspurn á Alþingi í dag.
Hún spurði Bjarna Benediktsson forsætisráðherra hvers vegna boðaður sé nú frekari niðurskurður og aðhald á lögreglu þótt þar brenni nær allir endar. Sjálfstæðismenn hafi um langt árabil haft dómsmálaráðherra í eigin röðum og vildi Kristrún vita hvort meðvitað væri verið að grafa undan lögreglunni.
Fram hafi komið að fjöldi lögreglumanna sé svipaður og fyrir 34 árum þrátt fyrir gríðarlega fólksfjölgun og ferðamenn. Þriðjungur lögregliumanna upplifir sig nú óörugga í starfi samkvæmt nýrri könnun. Bjarni svaraði að átak hefði verið gert gagnvart rannsókn á kynferðisbrotum með aukafjárveitingu sem hefði leitt til skemmri afgreiðslutíma.
Eins nefndi hann aðgerðir sem miða að alþjóðlegum glæpum.
Kristrún ræddi í seinni ræðu sinni að þótt verkefnum hefði fjölgað hjá lögreglu væri niðurstaðan sú að 20 lögreglumenn væru á vakt á öllu höfuðbporgarsvæðinu en ekki alls fyrir löngu hefðu 20 lögreglumenn gætt aðeins Reykjavíkur.
Bjarni nefndi í síðara svari að hælisleitendur hefðu kostað mikinn tíma hjá lögreglu.