Til stendur að loka dagþjónustu göngudeildar geðdeildar á Sjúkrahúsinu á Akureyri í sex vikur í sumar. Þetta kemur fram í grein sem Arnar Már Arngrímsson formaður rithöfundur, kennari og formaður stjórnar Grófarinnar skrifar í Vikublaðinu á Akureyri.
Í grein Arnars kemur fram að fólk sem stríðir við andlega erfiðleika þurfi að búa yfir mikilli orku og eiga sér öflugt tengslanet, enda flokkist heimilislæknar, geðlæknar, geðdeild, sálfræðingar, göngudeild geðdeildar og geðheilsuteymi undir takmörkuð gæði.
„Heimilislæknar eru of fáir, geðlæknar eru annað hvort farnir, hættir eða með varnarmúra í kringum sig (enda við það að bugast af of miklu álagi) , örfáir komast að á göngudeild geðdeildar, örfáir komast að hjá geðheilsuteymi HSN, sálfræðiþjónusta er einfaldlega orðin of dýr fyrir flesta (20-23 þúsund tíminn), geðdeildin er að nafninu til bráðadeild en þangað fer fólk í allskyns ástandi (oft á tíðum eina leiðin til að hitta geðlækni). Það er óásættanlegt að bíða þurfi mánuðum saman eftir að komast að hjá geðlækni,“ segir Arnar.
Arnar segir óásættanlegt hve fáir komist á göngudeild alla jafna eða í geðheilsuteymi og það sé út úr korti að sumt fólk þurfi að greiða sálfræðikostnað sem getur hlaupið á hundruðum þúsunda úr eigin vasa.
Arnar bendir á að Grófin – Geðrækt sé opin öllum sem vilja stuðning á jafningjagrundvelli.