Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar virðist hafa samþykkt að ríflega tvöfalda varnareyðslu Íslands á einu bretti næstu fjögur árin. Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor í hagfræði við Háskólann á Akureyri, ritaði skoðanagrein í dag á Vísi þar sem hann ræðir ákvörðun Bjarna og ríkisstjórnarinnar um að eyða 25,5 milljörðum króna næstu fjögur árin í aukin stuðning við Úkraínu.
Stuðningurinn er ætlaður „að veita Úkraínu alhliða efnahagslegan, mannúðar- og varnarstuðning (e. defence support) til langs tíma“. Það sem Hilmar bendir sérstaklega á eru ákvæði í samningum sem lúta að vopnum og vörnum, en eins og hann bendir á hefur umræðan á Íslandi verið mikil undanfarið vegna umdeildrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að fjármagna vopnakaup til Úkraínu í gegnum Tékkland. Ísland hefur skýra stefnu um stuðning við Úkraínu segir Hilmar, „en það breytir því ekki að Ísland er herlaust land og framleiðir ekki vopn“.
Í tilkynningunni sem Hilmar vísar í, um þennan aukna stuðning um 25,5 milljarða segir meðal annars: „Ísland er reiðubúið til að fjármagna, útvega og afhenda varnartengdar vistir og tækjabúnað (e. defence-related supplies and equipment). Ennfremur er Ísland tilbúið til samstarfs við Úkraínu er geri landinu kleyft að þróa hervarnariðnað (e. defence industry) sinn.“
Óvíst er hversu mikið af þessu fjármagni renni beint til vopnakaupa en ljóst er að einhver hluti þess er ætlaður slíkum fjárfestingum.
Þar að auki er ljóst að þessu aukni fjárhagslegi stuðningur eykur gríðarlega útgjöld ríkisins til varnarmála, en í fjárlögum síðustu ára hefur sú upphæð hækkað jafnt og hægt úr 1,5 milljörðum árið 2017 upp í 5 milljarða í fjárlögum þessa árs. Þessi aukni stuðningur upp á rúmlega 6 milljarða aukreitis að meðaltali á ári, þ.e. þessir 25,5 milljarðar á tímabilinu 2024-2028, gerir það að verkum að varnarmálaútgjöld íslenska ríkisins hafa rúmlega tvöfaldast og tekið þannig stórt stökk.