Fréttaveitan Al Mayadeen greinir frá því að Ísraelsher hefur viðurkennt að hafa misst 662 hermenn (látnir) í innrás sinni á Gasa. Þá greinir Middle East Monitor frá því að ísraelska sjónvarpsstöðin Channel 7 hafi fengið það staðfest frá varnarmálaráðuneyti Ísrael að tala særðra eða lamaðra hermanna í endurhæfingarstöðvum hersins sé yfir 70.000. En 8.663 hafa særst frá því að átökin á Gasa hófust 7. október.
Þetta eru hermenn sem hafa safnast upp á endurhæfingarstöðvum Ísraelshers síðustu árin. Í nýlegu átökunum sem hófust á Gasa eftir 7. október hafa 8.663 bæst við, sem hefur gert það að verkum að tala særðra og lamaðra hefur í fyrsta skiptið frá upphafi farið yfir 70.000 samtals.
35% af þessum 70.000 eru sagðir eiga við andleg vandamál að stríða (áfallastreituröskun eða PTSD), á meðan 21% eru með líkamleg meiðsli. Ekki er gefið upp við hverskonar meiðsli þeir sem eftir eru stríða við (44%).
Þann 15. júní voru 8 ísraelskir hermenn drepnir á einum degi í launsátri Hamas-liða í Rafah, sem var einn mannskæðasti dagurinn fyrir Ísraelsher síðan 7. október (en mannskæðasti dagurinn þar á undan var 22. janúar þegar 24 ísraelskir hermenn féllu á einum degi).
Ísraelsher er svokallaður „borgaraher” og þess vegna er það alvarlegt fyrir ísraelskt samfélag þegar herinn verður fyrir miklu mannfalli. Þetta eru borgarar að gegna herskyldu sem hafa verið kvaddir í herinn. Ef þeir verða fyrir varanlegum líkamlegum eða andlegum meiðslum, eða lamast, eru þeir ekki færir um að snúa aftur til borgaralegs samfélags. Ólíkt flestum öðrum löndum reiðir Ísrael sig ekki á svokallaðan „professional standing army”, heldur á borgaraher með hermönnum sem samanstanda af borgurum að gegna herþjónustu til ákveðins tíma, en hafa ekki boðið sig fram til að skrifa undir langtímaráðningarsamning við herinn, eins og gengur og gerist með atvinnuhermenn í atvinnuherjum (sem er normið í flestum öðrum ríkjum).
Samhliða þessum skakkaföllum, viðurkenndi talsmaður Ísraelshers það nýlega að markmið ríkisstjórnar Netanjahú um að eyða Hamas væri ómögulegt. Það er vegna þess að Hamas er hugmyndafræði, og það er ekki hægt að eyða hugmyndafræði, sagði Daniel Hagari, talsmaður Ísraelshers í viðtali á ísraelsku sjónvarpstöðinni Channel 13 News þann 19. júní.
Associated Press greinir frá því að „gjá virðist vera að myndast á milli ríkisstjórnarinnar og hersins” út af framgöngu stríðsins á Gasa. Þann 17. júní leysti Netanjahú upp stríðsráðuneyti Ísraels, eftir afsögn tveggja meðlima þess, Benny Gantz og Gadi Eisenkot. Þeir voru ósammála stefnu Netanjahú, en þeir vildu semja við Hamas um að leysa fleiri gísla úr haldi, og sögðu af sér eftir að Netanjahú neitaði alfarið að semja við Hamas og sagði að markmiðið væri ennþá að „eyða Hamas”. BBC greinir frá því að ættingjar gíslanna (sem eru í haldi Hamas) hafa verið að mótmæla ríkisstjórn Netanjahú og krefjast þess að meira verði gert til að leysa gíslana úr haldi.
Þrátt fyrir þessi skakkaföll sem Ísraelsher hefur orðið fyrir, og þrátt fyrir gjána sem er að myndast á milli ríkisstjórnarinnar og hersins, er Ísraelsher samt sem áður að skipuleggja að ráðast inn í Líbanon til að fara í stríð við Hezbollah. Ísraelsher tilkynnti það nýlega á Twitter að hernaðaráætlun þess efnis hafi verið samþykkt, en í tístinu segir meðal annars: „hernaðaráætlanir fyrir sókn í Líbanon hafa verið samþykktar”.
Ísraelsher heldur áfram að rigna sprengjum yfir Gasa. Heilbrigðisyfirvöld á Gasa greindu frá því að á laugardag hafi meira en 100 Palestínumenn verið drepnir og 169 særðir í loftárásum. Þetta er mannskæðasti dagurinn á Gasa frá 8. júní síðastliðnum, þegar sérsveitir Ísrael drápu 274 Palestínumenn og særðu hundruðir til viðbótar í Nuseirat flóttamannabúðunum, sem hluti af aðgerð til að bjarga 4 gíslum úr haldi Hamas, aðgerð sem hefur verið kölluð Nuseirat fjöldamorðið. Samkvæmt nýjustu tölum Sameinuðu þjóðanna hafa 37.396 manns verið drepnir á Gasa, þar af 15.000 börn, 86.098 særðir, og a.m.k. 10.000 til viðbótar er saknað og eru talin vera látin.