Lífleg umræða hefur skapast á facebook-síðum Samstöðvarinnar eftir frétt sem við birtum í morgun þar sem spurt var hvort karlkyns læknar tryðu konum síður en körlum þegar kæmi að áhyggjum fólks af eigin heilsu.
Haldið var fram að karllæknar sendu konur jafnvel heim vegna meintrar hysteríu án gagnlegrar aðhlynningar eða rannsókna. Jafnvel þegar konur sýndu einkenni krabbameins og væru í raun með krabbamein. Dæmi erum að kona hafi verið send heim og sagt að fá sér laxerolíu þegar hún var fárveik vegna óuppgötvaðs krabbameins.
Allmargar íslenskar konur í hópi lesenda segja í umræðu um fréttina að þær telji læknisþjónustu misjafna eftir kyni sjúklings. En fólk er ekki sammála um hvort eldri karlar séu íhaldssamari en hinir yngri.
Bent er á að ef miðaldra konur leita læknis séu einkenni þeirra oft rakin til breytingaskeiðsins þótt orsakir séu af allt öðrum toga.
Þá er staðhæft að hvítir karllæknar sýni konum og fólki sem er dekkra en þeir á litinn slakari læknisþjónustu en öðrum hvítum karlmönnum. Það sýni rannsóknir.
Sumar konur staðhæfa að kandídatar séu betri en læknar er kemur að mikilvægum viðbrögðum.
Þá er rétt að benda á að hluti kvenna fær ekki séð að þær fái lakari þjónustu hjá körlum í læknastétt en kvenlæknum.