Sex veðmála- og happdrættisfyrirtæki fóru með meirihluta í starfshópi dómsmálaráðherra

Afleiðingar þess að hafa við stjórnvölinn þjóna sérhagsmuna eru vel til sýnis í niðurstöðum starfshóps um veðmálastarfsemi á Íslandi. Hópurinn var skipaður af dómsmálaráðherra og komst að þremur sjálfstæðum og gjörólíkum niðurstöðum.

Formaður hópsins, Sigurður Kári Kristjánsson, tjáir sig um málið við Vísi í dag.

Hann er raunar titlaður sem lögmaður og málaður upp sem óháður aðili sem leiddi störf hópsins, en Sigurður er fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá 2003-2009.

Málið er þó hið furðulegasta. Starfshópurinn var myndaður árið 2019 og skýrsla hópsins var afhent dómsmálaráðuneytinu fyrir einu og hálfu ári síðan, en ekkert hefur verið aðhafst í málinu síðan, þó dómsmálaráðuneytið segir það enn vera til skoðunar.

Starfshópnum var ætlað að kanna réttarbætur vegna happdrættismála og annarrar veðmálastarfsemi. 11 einstaklingum var skipað í hópinn, en á gríðarlega undarlegan hátt. Einn var umræddur lögmaður og fyrrverandi þingmaður, einn spilafíklaráðgjafi, tveir frá dómsmálaráðuneytinu, einn frá embætti sýslumanni Suðurlands og sex frá þeim félögum sem voru með leyfi til veðmálastarfsemi af ýmsum toga á Íslandi.

Fáránleikinn blasir strax við þar sem sex af ellefu meðlimum hópsins voru hagaðilar, sem hópnum var ætlað að fjalla um og höfðu þeir því augljóslega meirihluta innan hópsins.

Enda varð raunin sú að hópurinn var innbyrðis fullkomlega ósammála um niðurstöður sínar og skiptust í þrennt. Ráðgjafi spilafíkla hafði sína útgáfu, formaður hópsins hann Sigurður skilaði sinni niðurstöðu og hagaðilarnir sex skiluðu enn annarri, allar þrjár á skjön við hvor aðra.

Merkilegt er að jafnvel Sigurður, sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í starfshópnum, sagði það blasa við að hagaðilarnir sex „hafa hagsmuni af þessari starfsemi, eru þessi fyrirtæki sem starfa í skjóli sérleyfa. Og þeir hafa gríðarlega mikla fjárhagslega hagsmuni af starfseminni eins og hún er í dag.“

Vísir segir hagnað þessara sex fyrirtækja vera yfir 4 milljarða á ári.

Það verður því vægast sagt að teljast kjánalegt að ætlast til þess að aðilar með slíkan ofsagróða myndu sammælast um tillögur um réttarbætur fíkla og notenda og skerða þannig eigin kökusneið.

Þetta er hins vegar sérhagsmunagæslan sem á sér stað bak við tjöldin í starfshópum og nefndum í hnotskurn.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí