Fyrr í dag var greint frá því á Vísi að á þessu ári hafi 9 af hverjum 10 íbúðum verið keyptar af einhvers konar fjárfestum, en ekki af fólki sem hugðist búa í íbúðunum. Marinó G. Njálsson segir að þessi staðreynd sýni vel galla íslenska húsnæðiskerfisins og nauðsyn þess að bregðast við þessum vanda.
„Nauðsynlegt er að taka skipulagsmál til endurskoðunar og setja kvaðir á húsnæði sem byggt er, þannig að tryggt er að rétt jafnvægi fáist á milli eignarhúsnæðis og leiguhúsnæðis. Hvert þetta jafnvægi á að vera, þarf að finna út, en þar sem ég bjó í Sydhavn í Kaupmannahöfn, varð eignarhúsnæði að vera minnst 40% af öllum íbúðum í fjölbýlishúsinu sem ég bjó í og leiguhúsnæði 40%. Þau 20% sem eftir stóðu gátu verið hvort heldur. Með þessu var tryggt gott framboð af hvorri tegund eignarhalds,“ segir Marinó á Facebook.
Hann segir að ef þetta heldur svona áfram þá myndast enginn þrýstingur til lækkunar á húsnæðisverði. „Vissulega er skortur á leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, en það er líka skortur á nýjum íbúðum til eigin búsetu. Sé fjársterkum aðilum leyft að kaupa upp húsnæði að vild, þá myndast ekki þrýstingur til lækkunar á húsnæði til eigin búsetu á tímum eins og núna. Á sama hátt er núverandi ástand á leigumarkaði afleiðing af áralangri eignastefnu, þar sem ekki voru til leigufélög sem byggðu leiguhúsnæði. Þau mistök verða ekki leiðrétt með því að leyfa fjársterkum aðilum í dag að ryksuga markað af nýju húsnæði meðan ungt fólk bíður í röðum eftir að Seðlabankinn lækki vexti og rýmki lánþegaskilyrði. (Og Seðlabankinn bíði eftir að vextir bankans virki á húsnæðisverð til lækkunar.),“ segir Marinó.
Hann segir að lokum að því miður virðist enginn vilji til að bæta úr þessu. „Ég hef svo sem bent á þetta áður og það hafa fleiri líka gert. Hins vegar virðist enginn áhugi hjá stjórnvöldum eða sveitarfélögunum að breyta þessu. „Þetta hefur alltaf verið gert svona og við förum ekki að breyta því“ er nánast viðhorfið. Mín skilaboð eru hins vegar þau, að ætlum við að fá heilbrigðan húsnæðismarkað, þá er þetta leiðin. Hluti af breytingunni er að takmarka skammtímaleigu á húsnæði á hverju svæði fyrir sig. Því miður bendir margt til þess, að húsnæði er að verða lúxusvara, sem stórir hópar þjóðfélagsþegna hafa ekki efni á,“ segir Marinó.