Skiptar skoðanir hafa orðið um það á Internetinu hvort leikskólar eigi að bjóða foreldrum barna til samverustundar á morgun, á bóndadaginn.
Margir foreldrar hafa verið boðaðið í bóndadagspartý með börnum sínum en allur gangur virðist þó á þessu milli leikskóla. Fyrrum varaþingmaður pírata hefur rætt að heimsóknir inn á leikskóla séu óráðlegar vegna smithættu á grasserandi tíma umgangspesta. Þá hafi ekki allir forráðamenn tíma fyrir svona heimsóknir, félagsaðstæður foreldra séu ólíkar og það sé leitt ef sum börn upplifa að þau séu skilin út undan.
Samstöðin hefur rætt við nokkra leikskólastjóra um þessi mál og þótt enginn hafi viljað láta neitt hafa eftir sér er ljóst að um flókin mál er að ræða og ýmis og ólík sjónarmið.
Kristín Dýrfjörð, sérfræðingur í leikskólafræðum, segir í pistli á laupur.is að foreldrasamstarf sé hornsteinn í leikskólastarfi og lykilþáttur í vellíðan og námi barna.
„Þegar foreldrar fá tækifæri til að taka þátt í starfi leikskólans, jafnvel með einföldum hlutum eins og kaffiheimsóknum, skapast sterkara samband milli heimilis og leikskóla,“ segir Kristín og bætir við að mikilvægt sé að halda í hefðir í tengslum við ýmsa menningartengda daga eins og Sumardaginn fyrsta, 17. Júní, bóndadag og konudag, það er daga sem tengjast fornu dagatali og hefðum.
„Þessar hefðir hafa ekki einungis þann tilgang að fagna íslenskri menningu heldur einnig að skapa rými fyrir samveru og samræður,“ segir Kristín einnig, enda upplifi börnin gleði og stolt þegar þau fái að sýna foreldrum sínum hvað þau eru að gera í leikskólanum og sýna vini.
Þá rekur Kristín að menningarvitund barna eflist sem og tengs ef þessar heimsóknir eigi sér stað og gangi vel en gæta verði þess að skólar sýni sveigjanleika svo hægt sé að koma á móts við alla foreldra.
Sjá nánar hér: