Segja mætti að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, hafi svarað kalli annars fyrrverandi kollega í verkalýðshreyfingunni, Vilhjálms Bjarnasonar í gær.
Vilhjálmur segir enga ástæðu til að treysta íslensku bönkunum vegna áhuga Arion og Íslandsbanka á að sameinast. Bankarnir hugsi fyrst og fremst um hagnaðarkröfu fjárfesta og þeirra sem nærast á skuldugum. Allræmdur er vaxtamunur, versnandi þjónusta og lítil samfélagsleg ábyrgð íslenskra brankastofnana, sem sumpart eru reknar með það að leiðarljósi að ryksjúga upp sem mestan hagnað á kostnað almennings eins og Gunnar Smári Egilsson fjölmiðlamaður orðar það.
Vilhjálmur bendir á að bankarnir hafi greitt út 69 milljarða í arð – meira en kjarasamningar kostuðu.
„Það er galið að horfa upp á það að Arion banki, Íslandsbanki og Kvika séu að greiða hluthöfum sínum samtals 50 milljarða króna í arð á næstu misserum – en nú hefur Landsbankinn einnig tilkynnt að hann muni greiða 19 milljarða í arðgreiðslu. Samtals nema arðgreiðslur þessara fjögurra banka því 69 milljörðum króna – meira en sjálfir kjarasamningarnir kostuðu! Til samanburðar var fullyrt að stöðugleikasamningarnir, sem gerðir voru í mars í fyrra og kostuðu 60 milljarða, væru nauðsynlegir til að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Þetta fjármagn kemur ekki úr lausu lofti – það er rifið út úr vösum almennings með okurvöxtum, himinháum þjónustugjöldum og gríðarlegum vaxtamun sem bankarnir græða óhikað á. Á meðan heimili og fyrirtæki berjast við að ná endum saman, moka bankarnir hagnaði sínum í vasa fjárfesta í stað þess að lækka kostnað fyrir almenning,“ segir Vilhjálmur.
Hann bætir við:
„Ætlar ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju, réttlæti og jöfnuð að láta þetta átölulaust? Því þessi græðgisvæðing í bankakerfinu er ekkert annað en dulin skattlagning á launafólk, heimili og almenning!“