Segir marga misnota veikindarétt

Pandórubox hefur verið opnað síðustu daga í umræðunni eftir að Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, skrifaði grein og ræddi vinnusiðferði sem hann segir að fari versnandi.

Benti Ólafur sérstaklega á aukningu sem hafi orðið í veikindaforföllum starfsmanna þegar vinnuveitandi segir fólki upp. Launþegar útvegi sér þá oft læknisvottorð án tafar og mæti ekki frekar til vinnu út allan uppsagnarfrestinn. Veikindi þeirra séu ekki alltaf raunveruleg. Varla sé hægt að ræða lengur um gagnkvæmar skyldur milli launþega og atvinnurekenda.

„Málum vegna misnotkunar á veikindaréttinum, sem kveðið er á um í lögum og kjarasamningum, hefur farið mjög fjölgandi hjá lögfræðiþjónustu Félags atvinnurekenda á síðustu árum. Þetta eru annars vegar mál sem varða falskar veikindatilkynningar og í ýmsum tilvikum augljóslega tilhæfulaus læknisvottorð. Hins vegar er um að ræða gríðarlega fjölgun á málum þar sem fólk skilar læknisvottorði um óvinnufærni vegna veikinda á uppsagnarfresti, þrátt fyrir að hafa verið heilsuhraust fram að því,“ skrifar Ólafur.

Margir hafa stigið fram og gagnrýnt skrif Ólafs. Sumir telja að þau litist af fordómum og hörku en aðrir segjast fullkomlega sammála skrifunum og telja að þessi mál þurfi að ræða upphátt þótt þau séu óþægileg. Það sé gömul saga og ný að ef starfsmaður þykist veikur og komi ekki í vinnuna aukist álag á hina sem mæta og það geti til lengri tíma bitnað á heilsu hinna dugandi.

Í umræðu á vef DV sem hefur fjallað um skrif Ólafs benda sumir lesendur á að sum fyrirtæki hafi tekið upp á því að greiða starfsmönnum bónusgreiðslur ef fólk mætir vel og er sjaldan forfallað vegna veikinda. Aðrir benda á að það sé ómannúðlegt og stórhættulegt heilsu lasinna starfsmanna ef þeir búa við svo mikla hörku á vinnustað að þeir neyðist til að mæta hundveikir í vinnu. Þá skipti miklu máli að veikur starfsmaður smiti oft aðra starfsmenn og sé því best geymdur heima er kemur að öryggi vinnustaðarins.

Nokkrir benda á að á sumum vinnustöðum, einkum utan landsteinanna, fái starfsmenn greidda „premíu“ fyrir hvern forfallalausan mánuð sem þeir skila af sér. Sjá hér: https://www.dv.is/frettir/2025/2/26/olafur-segir-marga-misnota-veikindarettinn-upp-hafa-komid-hreint-otruleg-mal/

Þá hefur farið á facebook fram í lokuðum hópum umræða um að opinberir starfsmenn þykist oft veikir í fríum og dobli þannig frítíma sinn, sem sé siðlaust.

Í Svíþjóð hefur verið bent á að atvinnurekendum hafi tekist að draga úr forföllum vegna veikinda með því að fyrstu tveir veikindadagarnir kosti starfsmenn launin. Eftir það fái launþegi 80% af launum.

Einn segir að svo ómannúðleg stefna sé í ætt við þrælahald og þurfi ekki að tvínóna með viðbrögð baráttufólks fyrir bættum kjörum og auknum réttindum launþega hér á landi ef annað eins yrði tekið í mál eða færi inn í samninga. Affarasælast sé að treysta orðum fólks er kemur að heilsu sem öðru. Fólki sé að jafnaði treystandi.

Sjá grein Ólafs Stephensen hér: https://atvinnurekendur.is/veikindarettur-og-vinnusidferdi/

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí