Sigurður Ingi Framsóknarformaður er sár. Hann segist alla jafna segja satt frá. „…til að benda hæstvirtum ráðherra á að hann hefði sakað mig um hluti sem ég geri alla jafna ekki, þ.e. að ljúga.“
Yfir til Sigurðar Inga.
„Svona í upphafi þings er ekki mjög mikið athugavert við fundarstjórn forseta en það hefði þó verið möguleiki fyrir forseta að grípa inn í þegar hæstv. ráðherra sagði mig ljúga í gær, vitandi að það var rangt, og ávíta hæstvirtan ráðherra. Það hefur verið gert. Ég tók reyndar eftir því að það voru sætaskipti hér á bak við mig þannig að ég ætla ekki að sakast við forseta um þetta. En ég skal viðurkenna að ég kom hér upp til að benda hæstvirtum ráðherra á að hann hefði sakað mig um hluti sem ég geri alla jafna ekki, þ.e. að ljúga. Ég átti satt best að segja von á því að hæstvirtur ráðherra myndi koma hér í ræðustól og biðja mig afsökunar á því og gangast við því að hann hefði gengið of langt. Þannig að ég verð að segja alveg eins og er að ef þetta er þetta nýja verklag sem forsætisráðherra ítrekaði svo oft í ræðu sinni í gær þá verður fjör í þingsal hjá forseta og stundum fundarstjórn.“