Útboð á hlutum ríkisins í Íslandsbanka hf. hófst í morgun. Almenningur sem vill kaupa fær útboðsgengi fyrir tilboðsbók A 106,56 krónur á hvern útboðshlut. Lágmarkstilboð er bundið við 100.000 krónur. Mest geta einstaklingar úr hópi almennings keypt bréf í bankanum fyrir tuttugu milljónir króna.
Einstaklingum og lögaðilum stendur til boða að taka þátt í markaðssettu útboði á bréfum ríkisins í
Íslandsbanka hf. sem stendur til fimmtudagsins 15. maí kl. 17:00. Grunnmagn útboðs
nær til allt að 376.094.154 hluta í Íslandsbanka hf, eða 20% af heildarhlutafé bankans.
Þá hefur fjármála- og efnahagsráðherra heimild til að auka útboðsmagnið ef umframeftirspurn verður til
staðar í útboðinu. Samanlagt geta grunnmagn útboðsins og möguleg magnaukning numið öllum
eftirstandandi hlutum ríkisins í Íslandsbanka eða 45,2% af almennum hlutum bankans.
Útboðslýsingin var birt í dag þar sem tilkynnt var um stærð útboðsins og verð á hverjum hlut í
tilboðsbók A. Hana má finna á útboðsvef Kviku banka hf., kvika.is/islandsbanki, vefsíðu Íslandsbanka
hf., islandsbanki.is, auk kynningarbæklings fyrir einstaklinga sem vilja taka þátt í útboðinu.
Kaupendur eru hvattir til þess að kynna sér vel innihald lýsingarinnar áður en ákvörðun um fjárfestingu er tekin, þ.á m. skilmála útboðsins og umfjöllun um áhættuþætti,“ segir í tilkynningu.
Í útboðinu er sérstök áhersla lögð á þátttöku einstaklinga eins og lög nr. 80/2024 kveða á um.
Úthlutun á bréfum á grundvelli tilboðsbókar A, þ.e. úthlutanir til einstaklinga með íslenska kennitölu
hafa forgang umfram tilboðsbækur B og C, og munu þeir njóta lægsta verðs. Að útboðinu loknu mun fjármála- og efnahagsráðuneytið birta lista yfir kaupendur, bæði einstaklinga og lögaðila. Barclays
Bank Ireland PLC, Citigroup Global Markets Europe AG og Kvika banki hf. eru sameiginlegir alþjóðlegir
umsjónaraðilar og sameiginlegir söluaðilar í útboðinu