Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnti í dag, þriðjudag, skýrslu stýrihóps sem ráðuneytið skipaði á síðasta ári til að gera tillögur um „landsáætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum“. Viðburðurinn bar yfirskriftina „Loftslagsþolið Ísland“. Samkvæmt tillögum stýrihópsins munu sömu aðilar stýra aðgerðum stjórnvalda til að laga landið að breyttu loftslagi, gera það „loftslagsþolið“, og aðgerðum til að vinna gegn loftslagsbreytingum.
Um hnatthlýnun og þróun loftslagsmála yfirleitt sagði ráðherrann við þetta tækifæri: „Það eru ákveðin óveðursský en í því felast líka tækifæri ef við vinnum rétt úr því.“
Mikilvægi þess að vera loftslagsþolið
Orðið „loftslagsþol“ birtist tvisvar sinnum í íslenskum fjölmiðlum á liðinni öld, ef marka má timarit.is. Í Tímanum var þess getið árið 1959 að engar tilraunir hefðu verið gerðar með loftslagsþol kartöflubjöllunnar á Íslandi, skordýrs sem gerði þá kartöflubændum í Ameríku lífið leitt. Árið 1999 mátti lesa í Bændablaðinu að nautgripir hafi „mikið loftslagsþol og geri ekki miklar kröfur til lofthita eða loftraka“.
Orðið er að því leyti gegnsætt í hinu nýja samhengi, að segja má að Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafi nú tekið að nota það í skyldri merkingu og því var beitt á liðinni öld, nú þegar rætt er um loftslagsþolið Ísland. Skýrslan sem ber þessa yfirskrift er liður í undirbúningi til að laga íslenskt samfélag að loftslagsbreytingum, auka loftslagsþol landsins. Í því samhengi virðist orðið aðeins einu sinni hafa birst í íslenskum prentmiðlum, það er fyrr á þessu ári í viðtali Fréttablaðsins við Guðlaug Þór, þar sem hann lét hafa eftir sér: „Við þurfum að byggja upp samfélag og atvinnulíf sem er loftslagsmiðað en líka loftslagsþolið.“
Tækifærishyggjan 2014
Þó að orðið loftslagsþol sé nýtt af nálinni í þessu tiltekna samhengi er saga viðleitninnar að baki, það er viljans til aðlögunar að loftslagsbreytingum, þegar orðin nokkuð fjölskrúðug. Árið 2014 var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Uppi varð fótur og fit þegar hann talaði, sem slíkur, um „tækifærin“ sem loftslagsbreytingar myndu færa Íslendingum. Fréttin birtist raunar 1. apríl, og sjálfsagt hafa runnið tvær grímur á einhverja, þegar haft var eftir ráðherranum:
„Augljóslega er þetta á heildina litið neikvætt,“ – það er yfirvofandi loftslagsbreytingar – „en í því felast þó tækifæri til að bregðast við þróuninni og bregðast sem best við henni og það eru ekki hvað síst tækifæri sem Ísland hefur.“ Sigmundur Davíð vísaði til bókar þar sem talin voru upp átta ríki sem gæti notið góðs af hnatthlýnun. „Og Ísland var eitt af þessum átta löndum framtíðarinnar. Bent er á að það séu augljóslega að opnast mjög mikil tækifæri á Norðurslóðum varðandi siglingaleiðir, varðandi olíu og gasvinnslu og önnur hráefni og ekki hvað síst til matvælaframleiðslu.“
Þær breytingar sem er um að ræða munu, að óbreyttu, valda geigvænlegum hörmungum og verða milljónum að fjörtjóni. Ráðherrann gerði sér fulla grein fyrir því: „Það skortir vatn,“ sagði Sigmundur, „orkan verður dýrari, það skortir landrými, þannig að menn gera ráð fyrir því að matvælaverð muni fara hækkandi um fyrirsjáanlega framtíð á sama tíma og það er sífellt meiri þörf fyrir matvælaframleiðslu vegna þess að eftirspurning er að aukast. Þannig að í þessu liggja tvímælalaust mikil tækifæri fyrir Ísland. Við erum að kortleggja þetta.“
Bjartsýnin 2018
Andspænis mögulegum hörmungum, sem enn væri þó hægt að afstýra, í heild eða að hluta, virtist þessi tækifærishyggja forsætisráðherrans blöskranleg. Og mörgum blöskraði, á umræðunni sem fylgdi í kjölfarið mátti skilja að flestum þætti sá póll sem ráðherrann tók í hæðina alfarið ótækur. Ekkert viðlíka uppnám varð fjórum árum síðar, þegar Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti nefndi tækifæri landsins í samhengi við yfirstandandi loftslagsbreytingar. Í því samhengi lagði hann áherslu á það efnafólk sem gæti viljað flytja til landsins. Ólafur Ragnar sagði:
„Það er erfitt að gera sér grein fyrir því hvað afleiðingarnar eru hrikalegar því ofsaveðrin sem eru í fréttum hérna hvað eftir annað munu verða enn erfiðari viðureignar. Hitastigið jafnvel í Suður-Evrópu mun verða þannig að það verður nánast óbyggilegt. Jafnvel London á síðasta sumri var allt að því óbyggileg því hún var ekki byggð fyrir það hitastig sem var. Þannig að við getum farið að horfast í augu við það að hingað komi fólk eða leiti fólk sem yrði einskonar loftslagsflóttamenn. Ekki fátækt fólk heldur fólk vill búa í landi sem hefur þolanleg dagleg veðurskilyrði.“
Stormhyggjan 2023
Ef flestir þögðu þunnu hljóði yfir þessum ummælum Ólafs Ragnars árið 2018, má segja að nú fimm árum síðar sé loks komið að löggildingu og innleiðingu hugmyndarinnar um að leita uppi þau tækifæri sem Íslandi geta staðið til boða í hörmungunum framundan. Við kynningu skýrslunnar Loftslagsþolið Ísland í dag, þriðjudaginn 26. september 2023, sagði Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis- og auðlindaráðherra:
„Mér finnst bara vel viðeigandi að við erum hér í Hannesarholti og hér er hann Hannes Hafstein sem elskaði storminn. Það getur styrkt mann að vera í storminum. Það eru ákveðin óveðursský en í því felast líka tækifæri ef við vinnum rétt úr því. Ég held að það skipti máli að nálgast þetta viðfangsefni með bjartsýni og vinna þetta saman. Því það er enginn vafi að ef við gerum það, þá náum við árangri.“
Eins og fram kom í kynningu skýrslunnar vann stýrihópurinn á grundvelli ferlis sem þegar var hafið. Með breytingum sem gerðar voru árið 2019 á lögum um loftslagsmál frá árinu 2012 var kveðið á um að ráðherra láti vinna „áætlun um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum“. Sú vinna skilaði sér þegar í „Hvítbók um aðlögun að loftslagsbreytingum“ sem Umhverfis- og auðlindaráðuneytið gaf út árið 2021, en vinna að hvítbókinni hófst í ráðherratíð Guðmundar Inga Guðbrandssonar.
Sami hópur stýri mótvægi og aðlögun
Ef áherslumunur er á inntaki hvítbókarinnar frá 2021 og þeim áformum sem kynnt voru í dag birtist hann kannski ekki síst í því hvernig þar er gerð grein fyrir tengslum áforma um aðlögun, annars vegar, og aðgerða til að vinna gegn loftslagsbreytingum, hins vegar.
Í kynningarkafla hvítbókarinnar frá 2021 segir að aðlögun sé: „aðskilið verkefni frá aðgerðum til að auka kolefnisbindingu og samdrátt í losun góðurhúsalofttegunda“. Í hinni nýju skýrslu er aftur á móti lagt til að sama nefnd beri ábyrgð á gerð áætlana ráðuneytis um loftslagaðgerðir til aðlögunar og til samdráttar og kolefnisbindingar.
Umhverfisráðherra lýsti í kynningu skýrslunnar ánægju sinni með það, að „sjá tillögur starfshópsins um það að það sé sami hópurinn sem hafi yfirsýn og vinni með og stýri mótvægisaðgerðum og aðlögunaraðgerðum. Af hverju? Því við megum ekki vinna í sílóum. Stundum er það þannig að mótvægisaðgerðir geta unnið þvert gegn aðlögunaraðgerðum.“
Skýrslan og stýrihópurinn
Þau efnisatriði skýrslunnar sem kynnt voru í Hannesarholti munu sæta tíðindum til næstu ára, eftir því sem þau raungerast, eitt á eftir öðru. Þau verða ekki nákvæmlega tíunduð hér. Af 93 aðgerðum sem lagðar eru til í skýrslunni leggur stýrihópurinn áherslu á að fjórum verði hrint í framkvæmd nú þegar: að gera aðgengilegan loftslagsatlas Íslands, til að kortleggja viðfangsefnið og veita yfirsýn yfir það; að setja á laggirnar vöktunaráætlun og hefja rannsóknarátak á sviðinu; að fylgjast grannt með vatns- og sjávarflóðum; og að skilgreina „kerfislæga loftslagsáhættuvísa“ fyrir landið.
Kynningu á niðurstöðum stýrihópsins annaðist fulltrúi Veðurstöfunnar í hópnum, Anna Hulda Ólafsdóttir. Hópmynd var tekin af meðlimum stýrihópsins við kynninguna, sem var skipaður fagfólki og ástríðufólki á sviði umhverfismála. Þar vantaði þó formann stýrihópsins, Jens Garðar Helgason, sem var hvergi sýnilegur. Jens virðist ekki búa yfir tiltakanlegri reynslu eða þekkingu á sviði umhverfis- og loftslagsmála en er framámaður í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi.