Á meðan alþjóðastofnanir, umhverfisverndarsamtök og það unga fólk sem á að erfa þennan heim berjast fyrir því að dregið verði úr hnatthlýnun og fyrirséðum hörmungum af völdum loftslagsbreytinga vinna þau stjórnmálaöfl sem áður afneituðu fyrirbærinu nú að því hörðum höndum að aðlagast þróuninni og grípa tækifærin sem í henni felast.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði þannig haustið 2022 stýrihóp til að vinna að tillögum fyrir gerð Landsáætlunar, ekki um viðbrögð til að draga úr hnatthlýnun, heldur um „aðlögun að loftslagsbreytingum.“ Hópurinn hefur nú skilað ráðherra tillögum sínum og verða þær kynntar í dag, þriðjudaginn 26. september, klukkan 14:30, undir yfirskriftini „Loftslagsþolið Ísland“. Staðsetning viðburðarins kemur ekki fram í tilkynningu ráðuneytisins, en honum verður streymt á vef Stjórnarráðsins.
Formaður stýrihópsins er Jens Garðar Helgason, aðstoðarforstjóri fiskeldisfyrirtækisins Ice Fish Farm eða Fiskeldis Austfjarða, og Laxa fiskeldis hf., þar áður framkvæmdastjóri útflutningsfyrirtækisins Fiskimiða.