Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, segir meirihlutanum í Reykjavík til syndanna í færslu á Facebook en hann segir að tvær nýlegar ákvarðanir hjá honum séu allt í senn vanvirðing, skammsýni og heimska. Þar á hann annars vegar við styttingu opnunartíma í sundi og svipta eldri borgara fríaðgangi að skíðasvæðum.
„Tvö mál hafa farið sérlega í taugarnar á mér, mál sem þykja ef til vill smá og ómerkileg en endurspegla ótrúlega skammsýni og mannfyrirlitningu. Þetta eru hvort tveggja sparnaðarmál borgarinnar. Hið fyrra er sú ákvörðun að skera klukkutíma af opnunartíma sundsstaða í borginni. Þetta er smáaurasparnaður en sýnir ótrúlegan vanskilning á hinu mikla hlutverki sem sundlaugarnar sinna í okkar menningu. Þetta snertir andlega og líkamlega heilsu fólks og er heimskuleg aðgerð í alla staði,“ segir Kristinn.
Hann veltir því svo fyrir sér hverjum hafa dottið hitt sparnaðarráðið í hug, að rukka eldri borgara sem vilja fara á skíði. „Hin sparnaðaraðgerðin er að svipta eldri borgara (67 ára og eldri) fríaðgangi að skíðasvæðum borgarinnar. Hvaða fávitagangur er það eginlega!? Hvernig dettur þessum mannvitsbrekkum í hug að ráðast með þessum hætti á þennan viðkvæma hóp sem samfélagið er í skuld við? Hvaða excel-snillingi tókst að reikna sig í að borgin gæti sótt stóra fjármuni í vasa eldra fólksins sem hefur enn heilsu til að sækja þessi útivistarsvæði (og viðhalda þar með heilsunni)? Þetta eru ekki smámál. Prinsippmál eru það aldrei. Þetta er allt í senn vanvirðing, skammsýni og heimska.“