Reykjavíkurborg hefur hækkað verðið fyrir nóttina í gistiskýlum borgarinnar, sem borgin rukkar önnur sveitarfélög fyrir vegna íbúa með lögheimili utan borgarinnar. Eftir hækkun kostar nóttin 46 þús. kr. Það er nokkuð hátt verð í samanburði við hótelgistingu, álíka dýrt og eins manns herbergi á Fosshótel í Guðrúnartúni og á Hotel Natura, sem er gamla Loftleiðahótelið á Reykjavíkurflugvelli.
Það eru ekki sérherbergi í gistiskýlunum heldur má frekar bera gistingu þar saman við rúm á gistiheimili í sal sem gestir deila með öðrum. Ódýrasta gistingin fyrir rúm í slíkum sal er á Hostel B47 við hliðina á Sundhöllinni. Þar kostar nóttin 6.481 kr. Á Kex-hosteli á Skúlagötunni kostar nóttin 8.127 kr. fyrir koju í svefnsal.
Eitt er ólíkt við gistiskýlin og hótel eða hostel. Þau sem vilja sofa í gistiskýlunum geta komið klukkan fimm síðdegis en verða að vera farin út klukkan tíu morguninn eftir. Á hótelum og gistiheimilum geta gestir yfirleitt komið klukkan þrjú um daginn og þurfa ekki að rýma herbergið fyrr en klukkan ellefu morguninn eftir.