Nasistar og kvenhatarar fá skjól á Íslandi – Svona urðum við aflandsríki í hatursorðræðu

Fyrr í dag greindi Vísir frá því að fyrirtæki sem felur upplýsingar fyrir nýnasista og fjársvikara hefði aðsetur á  Íslandi. Fyrirtækið heitir Witheld for Privacy og er í eigu Sergio Raygoza Hernandez, sem er búsettur í Bandaríkjunum. Fyrirtækið virðist hálfgert skúffufyrirtæki, það var stofnað árið 2021 og samkvæmt ársreikningi var engin starfsemi í því það ár. Fyrirtækið er þó skráð til húsa á Kalkofnsvegi í miðbænum og var svarað í símann þegar blaðamaður Vísis hringdi.

Það er þó ekkert nýtt að nýnasistar og álíka þorparar velji Ísland þegar þeir huga að netmálum. Ótal fréttir hafa verið fluttar síðasta áratug eða svo um að hin og þessi vafasama vefsíða væri skráð með lén sitt á Íslandi, hefði . is endingu. Svo dæmi sé tekið þá var greint frá því árið 2017 að nýnasistasíðan The Daily Stormer hefði skráð lén sitt á Íslandi.

Svo má nefna að nýnasistar eru ekki einu vafasömu karlmennirnir sem hafa skráð lén sín á Íslandi. Þannig er stærsta vefsíða Incels, kvenhatara sem upplifa skyrlífi sitt sem þvingað, skráð á Íslandi. Á vefsíðunni incels.is má finna fjölda karla ræða vandamál sín og hvernig þau séu flest konum að kenna. Í það minnsta tvö dæmi eru um að þessi hreyfing hafi getið af sér fjöldamorðingja, Elliot Rodgers og Alek Minassian. Báðir eru í guðatölu meðal Incels.

En hvers vegna vilja þessir menn hafa aðsetur sitt í netmálum á Íslandi? Ástæðan fyrir því er nokkuð einföld og má rekja til Alþingis. Árið 2010 var lögð fram þingsályktunartillaga, sem var samþykkt mótatkvæðalaust á Alþingi, um að Ísland myndi skapa sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingarfrelsis. Markmiðið var sagt vera að „umbreyta landinu þannig að hér verði framsækið umhverfi fyrir skráningu og starfsemi alþjóðlegra fjölmiðla og útgáfufélaga, sprotafyrirtækja, mannréttindasamtaka og gagnaversfyrirtækja.“

Lítið hefur farið fyrir því að kúgaðir hópar sem njóta ekki tjáningarfrelsis hafi nýtt sér þetta. Nema þá fyrrnefndir kven- og kynþáttahatarar, sem vissulega líta svo á sjálfa sig. Það má því segja að göfugt markmið alþingismanna hafi snúist í höndunum á þeim og í staðinn fyrir að veita kúguðum blaðamönnum frá einræðisríkjum rödd þá fengum við alræmda skúrka.

Þetta hefur verið lítið gagnrýnt, þó með undantekningum. Vararíkissaksóknari, Helgi Magnús Gunnarsson, sagði í fyrra að þetta væri „hreint galið“. Í frétt Kjarnans um málið er haft eftir Helga: „Þetta kann að skapa einhverjum gagnaverum ávinning en er að mínu viti algjörlega siðlaust og ekki gott fyrir ásýnd landsins að við rekum slíkt skálkaskjól.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí