Donald Trump er ákærður fyrir samsæri um að grafa undan kosningunum 2020 með aðgerðum þann 6. janúar 2021 þegar múgur réðst inn í þinghúsið í Washington. Hann er ákærður fyrir að hafa haldið fram vísvitandi ósannindum til að grafa undan tiltrú á kosningunum. Og hann er einnig ákærður fyrir að hindra rannsókn málsins. Hámarks refsirammi fyrir brot á þessum ákvæðum er fimm til tuttugu ár.
Trump á að mæta fyrir dómara á fimmtudaginn og hlýða á ákærurnar. Auk hans eru sex aðrir ákærðir fyrir þátttöku í samsærinu, en þeir hafa ekki enn verið nafngreindir.
Rannsókn stendur enn yfir á tilraunum Trump til að hafa áhrif á talningu atkvæða í Georgíufylki, en reikna má með að Trump verði líka ákærður fyrir þær sakir. Ákærurnar núna bætast við ákærur um að hafa borið fé á klámleikkonuna Stormy Daniels og fyrir að falsa gögn til að hylma yfir málið. Og fyrir að hafa haldið eftir leynilegum skjölum á heimili sínu í Flórída og ekki gæta öryggis þeirra.
Í öllum tilfellum hefur Trump hafnað þessum ákærum, sagt þær falskar og settar fram til að koma í veg fyrir að hann geti boðið sig fram til forseta 2024. Lögspekingar hafa bent á að orkað geti tvímælis að ákæra menn fyrir að halda fram skoðunum sínum, jafnvel þótt hægt sé að sanna að þær séu rangar. Trump nýtur málfrelsis eins og aðrir Bandaríkjamenn og stjórnarskráin ver rétt hans til að tjá sig, líka þótt hann haldi fram ósannindum og lygum.
Þrátt fyrir þessar ákærur og rannsóknir er Trump sigurstranglegastur í forvali Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar. Í nýrri könnun The New York Times segjast 56% Repúblikana vilja Trump í framboð en aðeins 17% Ron DeSantis sem kemur næstur. Langt á eftir með 3% hvert koma Mike Pence, fyrrum varaforseti Trump, Tim Scott öldungadeildarþingmaður og Nikki Haley, sem Trump skipaði sem sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum. Og þar á eftir með 2% eru Chris Christie, fyrrum fylkisstjóri New Jersey og Vivek Ramaswamy, viðskiptamaður og anti-woke maður mikill.
Það er því ekki að sjá að neinn geti skákað Trump. Meirihluti Repúblikana hefur þegar sýnt að hann er á sama máli og Trump, að ákærunnar séu pólitískar ofsóknir andstæðinga forsetans fyrrverandi. Þessu sama halda Sjálfstæðisflokksmenn um ákærur og dóm yfir Geir H. Haarde. Fleiri ákærur munu því ólíklega fá þetta fólk til að snúa baki við Trump, þær gætu jafnvel þvert á móti aukið traust þessa fólks á Trump sem frambjóðanda.
Enn eru mestar líkur á að þeir Joe Biden og Donald Trump verði í framboði fyrir sína flokka haustið 2024. Biden er ekki vinsæll forseti, samkvæmt könnunum eru um 41% sátt við störf hans en 54% ósátt. Þetta er slæm staða stjórnmálamanns, þótt hún sé ekki eins vond og hjá íslensku ríkisstjórninni, sem nýtur trausts 33% landsmanna samkvæmt nýjustu mælingu Gallup. Þegar Bandaríkjamenn eru spurðir um Trump segjast 40% hafa jákvæða afstöðu til hans en 56% neikvæða. Þetta er lakari staða en hjá Biden, en samt ekki svo ólík. Og í raun undarlegt að staða Trump skuli ekki vera lakari í ljósi allra þeirra málaferla sem hann stendur í.
Trump mætir Tanya Chutkan dómara á fimmtudaginn. Hún var skipuð í embætti í fylkisdómstól Washington DC af Barack Obama. Og hún hefur dæmt marga af þeim sem tóku þátt í uppþotinu 6. janúar og stundum til lengri fangelsisvistar en ákæra fór fram á.
Þegar hún sendi mann í fimm ára fangelsi fyrir þátttöku hans í uppþotinu sagði hún að það yrði að vera öllum ljóst að því yrði mætt með hörðum refsingum þegar fólk reyndi að stöðva friðsamleg val og daskiptisteypa réttkjörinni ríkisstjórn af stóli með ofbeldi.