Umhverfisstofnun hefur sektað Costco á Íslandi um 20 m.kr. vegna leka á um 110-120 þúsun lítrum af dísilolíu út í frárennsliskerfi Hafnarfjarðar. Sektin jafngildir um 0,09% af tekjum Costco.
Samkvæmt bréfi Umhverfisstofnunar til Costco uppgötvaðist lekinn ekki fyrr en eftirlitinu barst kvörtun í desember ú fyrra frá íbúa í vesturbæ Hafnarfjarðar um að olíu- og/eða tjöruhreinsislykt bærist úr frárennsliskerfi bæjarins og inn í íbúðarhús. Við athugun staðfesti fulltrúi eftirlitsins að lykt bærist úr fráveitukerfinu. Eftir rannsókn kom í ljós að lekinn var frá bensínstöð Costco, kom frá olískilju sem þurfti að hreinsa. Eftirlitsaðili á vegum Costco komst að því að um 140 þúsund lítra misræmi var í birgðum og sölu á dísilolíu en Umhverfisstofnun áætlar að um 110-120 þúsund lítrar af dísilolíu hafi runnið út í frárennsliskerfið.
Hvað er það mikið magn? 120 þúsund lítrar eru um 5% af Laugardalslauginni. Í dag er lítri af dísilolíu seldur á 272,70 kr. á bensínstöð Costco. Í krónum talið eru 120 þúsund lítrar því 32,7 m.kr. sé miðað við útsöluverð.
Sektin er því lægri en tap Costco af lekanum. Og sektin er ekki há í samanburði við veltu Costco á Íslandi sem velti rétt tæpum 22 milljörðum króna í fyrra. 20 m.kr. sekt er 0,09% af tekjum fyrirtækisins. Það er álíka hlutfallslega og verkamaður á lægsta taxta yrði sektaður um 4.350 kr. Engin sekt fyrir brot á umferðarlögum er svo lág.