Ríkisstjórn Jonas Gahr Støre í Noregi hefur boðað 40% auðlindaskatt á fiskeldi sem leggst ofan á tekjuskatt fiskeldisfyrirtækja. Fyrirtækjaskattur er 22% í Noregi en eftir breytinguna þurfa fiskeldisfyrirtæki að borga 62% tekjuskatt. Það þarf ekki að taka fram að engar svona fyrirætlanir er að finna hjá ríkisstjórn Íslands.
Þessi aðferð til innheimtu auðlindagjalds svipar til skattkerfis í Namibíu þar sem almennur tekjuskattur fyrirtækja er 32% en 35% í olíuiðnaði, 37,5% í námuvinnslu og 55% í demantanámum.
Á Íslandi gæti kerfið verið þannig að almenn fyrirtæki borguðu áfram 20% tekjuskatt en stórútgerðin, sem nýtur fiskveiðiauðlindarinnar, og stóriðjan, sem nýtur orkuauðlindina, borguði hærra hlutfall tekna sinna í skatt. Og svo auðvitað fiskeldisfyrirtækin sem nýta firði og flóa.
Norska ríkisstjórnin ætlar að hækka skatta á aðrar greinar sem nýta auðlindir lands og sjávar. Tekjuskattur orkufyrirtækja hækkar þannig úr 37% í 45%.
Eins og Samstöðin hefur bent á hafa tekjur stórútgerðar og stóriðju aukist mikið eftir innrás Pústíns í Úkraínu, sjá frétt: Stríð Pútíns færir sumum á Íslandi 180 milljarða. Stríðið og efnahagssveiflan hefur hins vegar grafið undan kaupmætti almennings vegna verðbólgu og hækkana á vöxtum og þar með húsnæðiskostnaði. Norska ríkisstjórnin er með skattahækkun á auðlindafyrirtæki að færa hluta af bættum hag þeirra til almennings. Engar slíkar fyrirætlanir eru uppi á Íslandi.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga