Skattaeftirlit viljandi haldið veiku á Íslandi

Ríkisfjármál 23. sep 2022

Skatteftirlit hefur verið veikt á Íslandi allan lýðveldistímann og skattsvik því umtalsverð. Mest urðu skattsvikin árin fyrir Hrun þegar skatteftirlitið og numu þá um 300 milljörðum árlega. Veiklað skatteftirlit hefur í raun verið stefna íslenskra stjórnvalda, sem hafa ekki sýnt neinn áhuga á að herða eftirlitið heldur þvert á móti losað sig við þá skattstjóra sem hafa viljað efla eftirlitið. Þetta er meðal niðurstaðna Jóhannesar Hraunfjörð Karlssonar, sem rannsakað hefur skattaeftirlit frá síðari hluta nítjándu aldar og fram að Hruni.

Jóhannes rakti hluta þessarar sögu við Rauða borðið. Hann benti á að stjórnsýsla og allt eftirlit hefði verið veik allt frá Heimastjórnarárunum. Og þrátt fyrir að öllum væri ljóst að skattsvik væru gríðarleg þá hafi alltaf skort vilja til að byggja hér upp öflugt eftirlit. Ástæðan getur ekki verið kostnaður því fátt af því sem ríkið gerir skilar eins miklum tekjum og hert skatteftirlit. Það margborgar sig. Skilar ætíð miklu hærri fjárhæðum í ríkiskassann en sem nemur kostnaðinum við eftirlitið.

Jóhannes skrifaði meistaraprófsritgerð um skatteftirlit á Íslandi, sem má nálgast hér: Moulding the Icelandic Tax System.

Í henni segir m.a. „Spilling er stjórnunarvandamál sem öll ríki þurfa að takast á við, hvert sem þróunarstigið er. Rætur hennar liggja djúpt í stjórnsýslu- og stjórnmálastofnunum. Veik stjórnsýsla og djúpstæð spilling fara saman, og á því þrífast útdráttarstofnanir. Bent er á að á Íslandi hefur ekki tekist að stýra samfélaginu innan ramma jafnræðis að því er varðar félagsmál, dómsmál, stjórnmál og efnahagsmál, og er skýringar að leita í skattkerfinu.

Engin tengsl eru milli skattastefnu eða skatthlutfalls annars vegar og hagvaxtar hins vegar, þar sem hið fyrra er fremur viðbragð við efnahagsstöðunni fremur en áætlun ríkisstjórnar. Á fimmta áratugnum eru skattsvik áætluð milli 35 og 45 af hundraði, en í aðdraganda hrunsins 2008 eru skattsvikin áætluð milli 15 og 25 af hundraði skatttekna.

Skattkerfið byggist á háum en stiglækkandi sköttum, þ.e. skattgreiðslur fara hlutfallslega lækkandi með hærri tekjum. Aðrar orsakir misréttis eru lítil tekjujöfnun og lág tilfærslugjöld milli tekjuhópa á Íslandi, miðað við það sem tíðkast annars staðar.“

Jóhannes skrifaði síðar grein með Þórólfi Matthíassyni prófessor um sama efni í Norræna skattatímaritið, sem lesa má hér: Tax Evasion, Tax Avoidance and The Influence of Special Interest Groups: Taxation in Iceland from 1930 to the Present

Í spjallinu við Rauða borðið var Jóhannes spurðu hvort hann teldi að val sitt á umfjöllunarefni hefði orðið til þess að hann ynni ekki við þessi mál lengur. Hann sagði það augljóst. Reglan á Íslandi væri sú að þegar fólk benti á skattsvikin þá væri litið á þau sem benda sem vandamálið, ekki þann sem bent er á. Það ætti við um hann sjálfan og fleiri sem reynt hefur að herða skatteftirlit eða benda á kostnaðinn við að halda því veiku.

Samtalið við Jóhannes má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí