Haukur Viðar Alfreðsson, doktorsnemi í skattahagfræði, rakti við Rauða borðið hvernig verið er að reyna innan alþjóðastofnana að ná utan um aukna skattheimtu af fyrirtækjum. Þetta væru viðbrögð til að stöðva kapphlaupið niður á botninn, þar sem ríki hafa keppst við að lækka skatta á fyrirtæki og fjármagn til að laða til sín fyrirtæki og verjast flótta þeirra yfir í lágskattalönd.
Efnahags- og framfarastofnunin OECD vinnur að því að fá lönd til að fallast á lágmarksskatt, 15%. Sem er lægri skatthlutfall en er hér, en tekjuskattur fyrirtækja er 20%. Evrópusambandið reynir að smíða kerfi til að ná utan um skattheimtu þannig að ríki skattleggi þar sem starfsemin fer fram eða þar sem varan er seld.
Þetta er gert til að hemja skattaflótta fyrirtækja sem laskað hafa samfélögin, sogið frá þeim fé sem áður var notað til að byggja upp og reka velferðarkerfin.
En geta Íslendingar hækkað fyrirtækjaskatta hér óháð niðurstöðum þessara stofnana?
Haukur svarar því játandi en segir það mismunandi eftir iðngreinum. Hann tók útgerðina sem dæmi, en þar er stórútgerðin með alla virðiskeðjuna. Hún kaupir sjálf fiskinn sem er landað og kaupir líka sjálf unninn fisk af fiskvinnslunni og selur svo áfram til annarra félaga, sem svo vill til að hún á líka. Útgerðin hefur því stjórn á því að taka hagnaðinn út þar sem skattar eru lægstir. Þetta má stöðva með því að innheimta auðlindagjöldin við bryggju.
Umræðuna um skattamál fyrirtækja má sjá í spilaranum hér að ofan.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga