Feminískar fréttir

Í feminískum fréttum var það helst að Sólveig Anna hélt erindi á Jafnréttisþing eftir mótmæli fjögurra kvenna og þar var rætt um samspil umhverfis- og jafnréttismála, enn bíða nokkur hundruð börn eftir leikskólaplássi og það eru einkum konur sem gæta þeirra á meðan, Pussy Riot er á Íslandi og opna sýningu, enn er mótmælt í Íran og enn bregðast stjórnvöld við með ofbeldi, Zanele Muholi opnaði sýningu um kynþáttahyggju, kynjatvíhyggju og hinseginleika,, fötluð börn eru einangruð vegna lélegs aðgengis, batahús hefur verið opnað fyrir konur og Fæðingarheimili hefur verið opnað.

Sólveig Anna lætur rauða spjaldið ekki stoppa sig

Sólveig Anna Jónsdóttir flutti erindi á Jafnréttisþingi sem fram fór í Hörpu í dag þar sem hún fjallaði um láglaunakonur í Reykjavík. Hún fékk rauða spjaldið frá nokkrum gestum þingsins sem svo gengu út en þær veifuðu rauðum fána sem á stóð „Við erum að dæma þennan leik og þú færð Rauða spjaldið”. Sólveig lét þetta ekki stoppa sig en hún sagði á þinginu að hún hafi verið hissa að hafa verið boðið því hún hélt sér hefði verði slaufað fyrir margvíslega glæpi. Í erindi sínu á þinginu fjallaði hún um efnahagslega kúgun á verka og láglaunakonum á Íslandi. Hún benti á að áhrif þess birtist m.a. í heilsuleysi sem leiði oft til örorku og styttra lífs en hjá konum ofar í stigveldinu. Á Íslandi ríki kerfisbundin andúð á kven-vinnuaflinu. Verka og láglaunakonur og fulltrúar þeirra hafi verið jaðarsettar og útilokaðar með markvissum hætti. Sólveig seigir að um það sé hægt að nefna fjölmörg dæmi en eitt af þeim nærtækustu sé Jafnréttisþing 2020 en þá gleymdust láglaunakonur Reykjavíkurborgar, þrátt fyrir að þær væru þá í verkfalli þar sem að meginkrafan var leiðrétting á sögulega vanmetnum kvennastörfum. Sólveig svaraði svo fyrir rauða spjaldið á fb síðu sinni að hún hefði ávalt verið „anti-sportisti” svo vísanir í íþróttaleiki væru aðeins til þess gerðir að æsa upp í henni. Þá minnti hún á um hvað baráttan snerist og sagði augljóst að þarna væri ekki verið að huga að kvennabaráttu sem væri árangursríkust þegar kæmi að baráttutækjum í samstöðu kvenna.

Átakaorðræða í loftslags- og jafnréttisumræðu

Jafnréttisþingið í ár fjallaði um samspil jafnréttis- og umhverfismála í tengslum við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og þær framtíðaráskoranir sem tengjast tækni- og loftslagsbreytingum í tengslum við nýja atvinnu- og lifnaðarhætti. Þá var því velt upp hvaða áhrif þessir þættir kunna að hafa á stöðu kynjanna í íslensku samfélagi. Aðalfyrirlesari var Hildur Knútsdóttir rithöfundur sem í erindi sínu fjallaði um hvernig kynjamisrétti hefur aukið loftslagsvandann og velti því fyrir sér hvort vandinn yrði leystur án jöfnuðar.

Á þinginu var einnig fjallað um átakaorðræðu í loftslags- og jafnréttisumræðu og bent á að rótgróið kynjamisrétti kristallist í viðbrögðunum við henni sem oftar er afneitun karla fremur en kvenna á loftslagsvandanum.

Enn bíða börn eftir leikskólaplássi og skólavist

618 börn 12 mánaða og eldri bíða enn eftir því að fá leikskólapláss í Reykjavík en hátt í hundrað pláss eru ónýtt vegna myglu í skólabyggingunum og 187 pláss eru ónýtt vegna mönnunarvanda skólanna. Þá á enn eftir að ráða í 83 stöðugildi í 67 leikskólum. Meirihlutinn í borgarstjórn kennir vinnumarkaðnum um stöðuna en vegna lágs atvinnuleysis er erfiðara að ráða fólk inn á leikskólana. Þetta kom fram í minnisblaði skóla- og frístundasviðs borgarinnar sem lagt var fyrir borgarráð í vikunni en þar fylgdu ekki upplýsingar um hverjir gættu þessara barna að mestu í dag, mæður, feður, ömmur eða afar. Þá hafa þrettán prósent barna í verndarkerfinu enn ekki fengið skólavist hér á landi.

Pussy Riot á Íslandi

Maria (Masha) Alechina meðlimur Pussy Riot gagnrýndi Vesturlönd fyrir að sitja hjá í áraraðir á meðan einræðisstjórn Pútíns hafi orðið að ofbeldis- og alræðisstjórn sem endaði í innrásinni í Úkraínu. Hún segir að á meðan Evrópuríki haldi áfram að kaupa olíu og gas frá Rússlandi, hagnist Rússar á innrásinni og orkuverðið hækkar.

Femínistarnir og aktívistarnir í fjöllistahópnum eru staddir hér á landi til að setja upp sýningu í Þjóðleikhúsinu og Kling og Bang í nóvember.

Sýningin í Þjóðleikhúsinu verður leiksýning, gjörningur og tónleikar sem þær hafa ferðast með um Evrópu í sumar en í sýningarsal Kling og Bang verður fyrsta yfirlitssýning hópsins.

Pussy Riot hafa verið ofsóttar af rússneskum stjórnvöldum fyrir pólitíska afstöðu sína en hópurinn var stofnaður í Moskvu árið 2011 og hafa 11 konur komið að honum á síðustu 11 árum. Þær byrjuðu sem punk hljómsveit sem kom fram við óvæntar aðstæður í mótmælaskyni við Pútín og rétttrúnaðarkirkjuna og eru yfirlýstir femínistar og baráttukonur fyrir réttindum hinsegin fólks eða LBGTQ+. Nokkrir meðlimir hópsins hafa setið í rússneskum fangelsum um tíma og hafa Amnesty International og önnur mannréttindasamtök tekið upp málstað þeirra enda meðferð yfirvalda á þeim þótt afar óréttlát.

Ekkert lát á mótmælunum í Írak

Íranskir öryggislögreglumenn skutu byssukúlum og beittu táragasi gegn syrgjendum Masha Amini sem komu saman við gröf hennar í morgun. Mótmælaalda hefur staðið yfir í landinu í 40 daga eftir andlát hennar en hún var í haldi siðgæðislögreglunnar fyrir meinta slælega meðferð á höfuðklút sínum þegar hún lést. Hefðbundinn sorgartími í Íran er fjörutíu dagar svo þúsundir söfnuðust saman í heimaborg Masha Amini, Saqez, í vestanverðu Kúrdistan í morgun. Hluti hópsins lenti í útistöðum við lögregluna en engar fréttir hafa borist um mannfall. Netsamband til og frá landinu var takmarkað í kjölfarið. Mikið var um samstöðumótmæli í Evrópu í síðustu viku og stærsti hópur Írana utan landsins kom saman í Berlín.

Svartir líkamar á Listasafni Íslands

Suðurafríski listamaðurinn Zanele Muholi opnaði sýningu á Listasafni Íslands nýverið en verkin fjalla um kynþáttahyggju, kynjatvíhyggju og hinseginleika ásamt stéttapólitík og er sýnileiki svartra þar í aðalhlutverki.

Sýningin sem er á vegum Tate Modern-safnsins í London samanstendur af verkum sem Muholi vann frá árinu 2002 í formi ýmissa ljósmyndasería. Hán segist vilja deila myndmáli sem ekki sé sameiginlegt meðal ólíkra þjóða og fjallar hán m.a. um hvernig kynferði birtist á mismunandi hátt í heiminum. Einnig veltir hán fyrir sér söfnum og galleríum og hvernig þau hafa tilhneigingu til að vera aðeins fyrir útvalda. Svartir líkamar hafi mögulega ekki átt stóran sess á listasafni Íslands til þessa. Sýningin stendur yfir til 12. febrúar 2023.

Aðgengi ekki aðeins á ábyrgð fatlaðs fólks

Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir, formaður Sjálfsbjargar, segir þörf á að vekja almenning til umhugsunar, svo samfélagið missi ekki af framlagi þess fólks sem hafi verið útilokað allt of lengi. Með herferðinni sé vakin sérstök athygli á aðgengi að allskyns viðburðum, barnaafmælum, atvinnuviðtölum, námskeiðum ofl. Margrét segir að aðgengi sé ekki bara á ábyrgð fatlaðs fólks, heldur samfélagsins alls. Það sé mikilvægt að allir geti tekið þátt og enginn sé útilokaður. „Það hefur bara því miður gerst að börn hafa ekki getað komist í afmæli út af því að þau eru haldin á stað sem er óaðgengilegur, bara út af því að þau eru í hjólastól.“

Margrét segir einnig að aðgengi í kirkjum sé oft takmarkað og fjölskylduviðburðir eins og brúðkaup og skírnir ekki alltaf aðgengilegir fötluðu fólki. Þetta valdi því að fatlað fólk geti stundum ekki tekið þátt í sjálfsögðum fjölskyldustundum sem sé ótrúlega sárt og að fólk þurfi oft á tíðum að fara út bakdyramegin eða að hýrast á óþægilegum stöðum. Hún talar af eigin raun og segir ekkert óþægilegra en að vera við kirkjuathöfn og þurfa til dæmis að fara út áður en brúðhjónin ganga út um kirkjudyrnar. „Maður upplifir sig fyrir og eins og maður eigi ekki að vera þarna. Og það er náttúrulega bara ótrúlega leiðinlegt.”

Mikil skömm yfir því að hafa misst börn frá sér

Í tvö ár hefur verið starfrækt Batahús fyrir karla sem lokið hafa afplánun en nú hefur einnig verið opnað Batahús fyrir konur. „Þessar konur eru með mikla áfallasögu, eins og þeir auðvitað líka. Þær eru með langa og flókna áfallasögu. Og það sem líka einkennir margar þeirra er að þær eiga börn sem þær hafa misst forræði yfir, tímabundið eða alfarið. Því fylgir mikil skömm,“ segir Guðrún Ebba Ólafsdóttir, forstöðukona Batahúss fyrir konur.

„Þetta er oft fólk þar sem tengsl eru rofin við fjölskyldu og vini,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra (V) en hann telur mikilvægt að ráðuneytið styðji við rekstur húsanna.

„Okkar hlutverk hérna er að leyfa þeim að einblína á batann sinn. Að ég verði fullgildur þjóðfélagsþegn að nýju,“ segir Guðrún Ebba einnig.

Fæðingarheimilið endurvakið í nýrri mynd

Emma Marie Swift ljósmóðir og einn aðstandenda nýs fæðingarheimilis í Reykjavík sem á að taka til starfa seinna á árinu segir marga eiga góðar minningar af horni Þorfinnsgötu og Eiríksgötu þar sem gamla fæðingarheimilið var starfrækt á árunum 1960-1995. Reykjavíkurborg rak heimilið lengi vel en undir það síðasta heyrði það undir Borgarspítalann. Borgin hefur afsalað sér nafninu formlega svo við því taka þær Emma Marie, Embla Ýr Guðmundsdóttir, Edythe L. Mangindin og Stefanía Ósk Margeirsdóttir en þær leita nú að hentugu húsnæði fyrir það.

Vilja höfða sérstaklega til erlendra kvenna.

„Við viljum bæta samfellda þjónustu fyrir konur í barneignarferlinu “ segir Emma en hugmyndin er að fólk geti leitað til heimilisins og fjölskyldan nái að kynnast sínu ljósmæðrateymi. Þá standi fólki til boða meðgönguvernd, fæðingaþjónusta og heimaþjónusta. Emma segir að traust verði til við það að foreldrar kynnist betur þeim sem annast það og þannig gangi fæðingin betur. Rannsóknir sýna að inngrip inn í fæðingar séu mun algengari meðal kvenna af erlendu bergi og sé ástæðan fyrst og fremst skortur á fræðslu og réttri umönnun á meðgöngunni.  

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí