Lula sigraði með 50,9% atkvæða

Heimspólitíkin 31. okt 2022

Lula da Silva var kjörinn forseti Brasilíu með 50,9% atkvæða gegn 49,1% atkvæða til Jair Bolsonaro. En þótt munurinn sé lítill í prósentum þá fékk Lula meira en tveimur milljónum fleiri atkvæði. Hann tekur við embætti 1. janúar næstkomandi, tólf árum eftir að hann lét af embætti forseta.

Lula var með yfirburði í norðausturhluta Brasilíu á meðan Bolsonaro fékk fleiri atkvæði í suðurhlutanum, þar með talið í stórborgunum Sao Paulo og Rio de Janeiro.

Sigurvegarinn er brasilíska þjóðin, sagði Lula, í fögnuði eftir að úrslitin lágu fyrir. Hann sagði lýðræðið hafa sigrað og þá samstöðu sem myndaðist um framboð hans, meðal fólks og flokka sem kærðu sig ekki um þróun landsins á síðustu árum.

Kosningin er samt mikill sigur fyrir Lula sem var dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir spillingu 2017 en látinn laus úr stofufangelsi eftir úrskurð Hæstaréttar fyrir tveimur árum.

Í byrjun kosningabaráttunnar var Lula um 19 prósentustigum yfir Bolsonaro í könnunum. Munurinn var mun minni í fyrri umferð kosninganna, aðeins 5 prósentustig. Og nú er munurinn innan við tvö. Stuðningsmenn Bolsonaro unnu líka mikilvægt embætti í fylkiskosningum og flokkur hans hefur sterka stöðu á þingi.

Það er því fjarri því að Lula hafi gefið Bolsonaro rothögg með sigrinum í gær.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí