Þótt skoðanakannanir bendi til að mögulegt verði að mynda ríkisstjórn frá miðju til vinstri eftir kosningar í Danmörku talaði Mette Frederiksen, formaður Sósíaldemókrata um ríkisstjórn yfir miðjuna í umræðum forsætisráðherraefna í kvöld. Og margt bendir til að það verði niðurstaðan.
Lars Løkke Rasmussen, fyrrum formaður Venstre og nú leiðtogi Moderaterna hefur ekki lýst yfir stuðningi við forsætisráðherraefni bláu blokkarinnar. Hann rer talsmaður breiðra ríkisstjórnar yfir miðjuna, ríkisstjórnar mið-vinstri, mið-hægri og hægri flokka frá Sósíaldemókrötum í gegnum Radikale venstra, Venstre og c, jafnvel yfir til Íhaldsflokksins.
„Ég sé ekki hvaða breyting yrði með ríkisstjórn leiddri af Jakob Ellemann eða Søren Pape fyrir þetta bláa tuskuteppi, sem nær alla leið til Danmerkurdemókrata, Nýrra borgara og Danska þjóðarflokksins,“ sagði Løkke eftir kappræðurnar.
Hann hefur sótt á í kosningabaráttunni, hefur næstum tvöfaldað fylgi sitt og mælist nú með 12 menn inni. íhaldsflokkurinn er hins vegar búinn að missa flugið, var með 25 þingmenn inni samkvæmt mælingum áður en boðað var til kosninga en mælist nú bara með 15. Venstre er því aftur orðinn forystuflokkur hægrisins.
Danmerkurdemókratar Inger Støjberg mældust sterkir við fyrstu mælingar en hafa gefið eftir í kosningabaráttunni, mældust með 20 þingmenn fyrst en eru nú með 14. Um tíma leit út fyrir að Danski þjóðarflokkurinn myndi þurrkast út, en hann mælist nú inni með 4 þingmenn. Og Nýi borgaraflokkurinn mælist með 10 þingmenn og er að sækja á.
Ef við skoðum hægrið í Danmörku, frá miðju til ysta hægris, þá eru þetta staðan samkvæmt nýjustu könnun í þingmönnum talið (innan sviga breytinga frá kosningunum 2019):
Moderaterne: 12 þingmenn (+12)
Venstre: 23 þingmenn (-20)
Liberal Alliance: 10 þingmenn (+6)
Det Konservative Folkeparti: 15 þingmenn (+3)
Kristendemokraterne: 0 þingmenn (+/-0)
Danmarksdemokraterne: 14 þingmenn (+14)
Dansk Folkeparti: 4 þingmenn (-12)
Nye Borgerlige: 10 þingmenn (+6)
Hægrið með Moderaterne: 88 þingmenn (+9)
Eins og sjá má af þessu vinnast 8 af þessum 9 þingmönnum innan hins popúlíska hægris.
Það eru minni tíðindi vinstra megin, ekki sami klofningurinn og var hægra megin á kjörtímabilinu.
Sambærileg tafla myndi líta svona út, talið frá miðju yfir á vinstri kantinn.
Radikale Venstre: 9 þingmenn (-7)
Socialdemokratiet: 47 þingmenn (-1)
Alternativet: 4 þingmenn (-1)
Socialistisk Folkeparti: 15 þingmenn (+1)
Enhedslisten: 12 þingmenn (-1)
Vinstrið: 87 þingmenn (-9)
Það eru 179 þingmenn á danska þjóðþinginu og því er meirihlutinn 90 þingmenn. Fjórir þingmenn koma frá Grænlandi og Færeyjum og reikna má með að þeir falli allir í vinstri blokkina. Eins og staðan er í dag ætti Mette Frederiksen því að hafa nauman meirihluta til að mynda ríkisstjórn með stuðningi þessara flokka. Það kallar hins vegar á samninga við róttæka sósíalista og Mette vill frekar semja yfir miðjuna við hægri flokka.
Og það er líklegasta niðurstaða kosninganna. Það sem gæti komið í veg fyrir það væri meirihluti hægri flokkanna án Moderaterna, en kannanir virðast ekki benda til að það sé möguleiki.
Eins og sjá má bendir flest til að það verði tólf flokkar á þingi eftir kosningar. Engar umræður eru þó í Danmörku að hækka þröskulda eða fella smærri flokka með öðrum hætti eins og gömlu flokkarnir á Íslandi komu sér saman um að gera.
Myndin er af Mette Frederiksen í kappræðunum í kvöld.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga