Ný ríkisstjórn Ulf Kristersson, formanns Moderaterna í Svíþjóð, situr í skjóli Svíþjóðardemókrata, flokks sem á rætur sínar í hreyfingu nýnasista. Og það sést á stefnunni. Lækka á fjölda flóttafólks úr 6.400 niður í 900 á ári, þyngja á refsingar og herða innflytjendalög svo þau verði þau þrengstu í Evrópusambandinu.
Svíþjóðardemókratar fá ekki ráðherra en verja ríkisstjórn Moderaterna, Frjálslyndra og Kristilegra demókrata. Að launum fá þeir tvöföldun á lengd fangelsisdóma fyrir gengjaglæpi, bann við betli, beitingu brottvísana erlendra ríkisborgara sem brjóta lög og þrengingu skilyrða fyrir veitingu ríkisborgararéttar. Gerðar verða kröfur um háttsemi og ríkari kröfur um efnahagslegt sjálfstæði.
Stuðningur Svíþjóðardemókrata við ríkisstjórn Kristersson mun því hafa viðlíka áhrif á sænskt þjóðlíf og það hafði í Danmörku þegar Danski þjóðarflokkurinn varði ríkisstjórn Anders Fogh Rasmussen vantrausti 2001.
Ríkisstjórnin mun reka aðhaldsstefnu í ríkisfjármálum án þess að hækka skatta, sem getur ekki leitt til annars en niðurskurðar á opinberri þjónustu. Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um aukinn einkarekstur í heilbrigðis- og menntakerfi. Þó er gert ráð fyrir takmörkunum á arðgreiðslum út úr skólum þannig að þeir þurfi fyrst að uppfylla skilyrði um námsárangur, en á undanförnum mánuðum hefur komið í ljós að stórfyrirtæki í skólarekstri hafa greitt eigendum sínum háar fjárhæðir í arð, peninga sem þeir fá úr sjóðum ríkis og sveitarfélaga til að veita nemendum menntun.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga