830 ungkarlar metnir á 1.800 milljarða króna

Fótboltinn er drifinn áfram af peningum þótt úrslitin ráðist af mörkum. Mútur til stjórnarmanna Alþjóða knattspyrnusambandsins FIFA ráða hvar heimsmeistaramótið er haldið. Talið er að tekjur FIFA vegna sýningarréttar og auglýsinga vegna HM 2022 verði um 1.100 milljarðar króna. Og leikmennirnir 830 sem spila eru metnir á um 1.800 milljarða króna.

Fótboltamenn eru metnir til fjár, keyptir og seldir, sem kunnugt er. Samkvæmt verðmati Transfermarkt, þýskrar vefsíðu sem hefur reynst góð heimild, er samanlagt verðmat á enska liðinu það hæsta eða um 185 milljarðar króna. Ástæðan er ekki að ensku leikmennirnir séu endilega bestir heldur hitt að leikmenn í ensku deildinni eru metnir hærra en í öðrum deildum, enda veltir sú deildum mestum peningum. Og í Englandi eru enskir leikmenn almennt keyptir á hærra verði en erlendir leikmenn. Eigendur félaganna græða meira á þeim ensku, selja meiri varning og miða og fá stærri auglýsingasamninga út á enska leikmenn en útlenda.

Markaðsvirði liðanna er svona samkvæmt Transfermarkt:

England: 184,6 milljarðar króna
Brasilía: 165,5 milljarðar króna
Frakkland: 146,1 milljarðar króna
Portúgal: 137,3 milljarðar króna
Þýskaland: 129,7 milljarðar króna
Spánn: 128,5 milljarðar króna
Argentína: 94,5 milljarðar króna
Niðurlönd: 86,0 milljarðar króna

Belgía: 82,5 milljarðar króna
Úrúgvæ: 65,9 milljarðar króna
Króatía: 55,2 milljarðar króna
Serbía: 52,7 milljarðar króna
Danmörk: 51,7 milljarðar króna
Sviss: 41,2 milljarðar króna
Bandaríkin: 40,6 milljarðar króna
Pólland: 37,4 milljarðar króna

Marokkó: 35,3 milljarðar króna
Senegal: 33,6 milljarðar króna
Ghana: 31,8 milljarðar króna
Kanada: 27,4 milljarðar króna
Mexíkó: 25,8 milljarðar króna
Suður-Kórea: 24,1 milljarðar króna
Wales: 23,5 milljarðar króna
Kamerún: 22,7 milljarðar króna

Japan: 22,6 milljarðar króna
Ekvador: 21,5 milljarðar króna
Túnis: 9,1 milljarðar króna
Íran: 8,7 milljarðar króna
Ástralía: 5,5 milljarðar króna
Sádi Arabía: 3,7 milljarðar króna
Kosta Ríka: 2,7 milljarðar króna
Katar: 2,2 milljarðar króna

Verðmat á nýjasta 26 manna hópi íslenska karlalandsliðsins er samkvæmt Transfermarkt 9,5 milljarðar króna. Það er því verðmætara en lið Sádi Arabíu, Kosta Ríka og Katar.

En það er ekki hægt að fá allt fyrir peninginn. Lið Argentínu sem tapaði 1:2 fyrir liði Sádi Arabíu var tæplega 26 sinnum verðmætara á pappírunum. Sem er kannski erfitt að fullyrða um, því allir leikmenn Sádi Arabíu spila í deildinni heima, eru í raun heimur aðgreindur frá fótboltaheiminum.

Lið Þjóðverja sem tapaði fyrir Japan 1:2 var tæplega sex sinnum verðmætara.

Af þessum 1.800 milljörðum króna sem leikmennirnir í Katar eru metnir á koma tæp 36% úr ensku deildinni, meira en þriðjungur. 18% koma úr spænsku deildinni, 15% úr þeirri þýsku og tæp 10% úr þeirri ítölsku. Sem hefði vegið meira en ítalska liðið hefði komist á mótið, en ítalska liðið er yfirleitt skipað mönnum sem spila heima. Næst kemur svo franska deildin með 8%.

En þessar fimm deildir eru með 87% af leikmönnunum í Katar í krónum talið. Hollenska deildin og sú Portúgalska koma næstar, en eru aðeins fjórðungurinn af því sem franska deildin er.

Og þessu er álíka ójafnt skipt milli félagsliðanna. Á HM eru sextán leikmenn frá Manchester City sem samanlagt eru metnir á rúma 125 milljarða króna. Það er um 7% af verðmæti allra leikmannanna.

Listinn yfir topp 10 verðmæti leikmanna eftir félagsliðum er svona:

Manchester City: 125,3 milljarðar króna
FC Bayern: 114,9 milljarðar króna
Barcelona: 103,7 milljarðar króna
Real Madrid: 95,3 milljarðar króna
Paris Saint-Germain: 90,4 milljarðar króna
Manchester United: 74,0 milljarðar króna
Arsenal: 65,3 milljarðar króna
Chelsea: 63,4 milljarðar króna
Tottenham Hotspur: 63,3 milljarðar króna
Borussia Dortmund: 52,2 milljarðar króna

Manchester City er í eigu furstana í Sameinuðu Arabísku furstadæminu og Paris Saint-Germain í eigu prinsana í Katar. FC Bayern er félagsskapur að 3/4 en þrjú þýsk stórfyrirtæki eiga saman 1/4. Barcelona og Real Madrid eru félagsskapur og Borussia Dortmund er skráð hlutafélag í dreifðri eign. Hin félögin eru í eigu auðkýfinga, Manchester United er reyndar til sölu.

Næstu félög eru Liverpool, Atlético Madrid, Juventus, Inter Milan og AC Milan. Ítölsku félögin væru örugglega hærra á listanum ef ítalska landsliðið hefði komist á HM.

Þessi fimmtán félög „eiga“ leikmenn á HM sem metnir eru á 1.044 milljarða króna, um 58% af heildarverðmati allra leikmanna.

Myndin er af Achraf Hakimi hægra bakverði liðs Marokkó að fá koss frá mömmu sinni Saida Mou eftir sigur Marokkó á Belgíu í gær. Hakimi fæddist í Madrid á Spáni og byrjaði átta ára í akademíu Real Madrid. Saida vann í tveimur vinnum, skúraði á kvöldin, svo sonur hennar gæti látið drauma sína rætast, meðan faðir hans seldi ýmsan varning á götum úti.

Í viðtali sagðist Achraf Hakimi standa í eilífri þakkarskuld við foreldra sína og ekki síður bræður sína, sem foreldrarnir gátu ekki stutt á sama hátt.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí