Skráning í trú- og lífsskoðunarfélög um næstu mánaðamót ræður því hvert sóknargjöld fólks renna, en þau voru 13.284 kr. á mann í ár. Miðað við skráningu um síðustu mánaðamót mun Þjóðkirkjan missa töluvert af þessum tekjum, Siðmennt og Ásatrúarfélagið fá meira til sín en mest fjölgar þeim sem hvergi eru skráðir. Sóknargjöld þeirra sitja kyrr í ríkissjóði, renna til söfnuðar allraheilags ríkissjóðs.
Þjóðkirkjan hefur séð á eftir rúmlega tvö þúsund manns á síðustu tæpum tveimur árum. Það merkir tekjutap upp á 27,6 m.kr. Ef Þjóðkirkjan hefði haldið í við vöxt mannfjöldans hefði hlutur hennar orðið 173,7 m.kr. meiri en stefnir í.
Eftir sem áður mun Þjóðkirkjan fá langt mest af sóknargjöldunum, rúma þrjá milljarða króna. Það er 59% af sóknargjöldum allra landsmanna, en 80% af þeim sóknargjöldum sem renna til safnaða.
26% af sóknargjöldunum verða nefnilega eftir í ríkissjóði, gjöld þeirra sem eru skráð utan trúfélaga og þeirra sem engin skráning er um varðandi trúfélag. Fólk utan trúfélaga skilur 395,5 m.kr. eftir í ríkissjóði en fólk sem engin skráning er um skilur eftir 945,6 m.kr. Ríkissjóður er því næst stærsta trúfélagið með meira en 1.341 m.kr. í sóknargjöld.
Þau trú- og lífsskoðunarfélög sem eru í mestri sókn að undanförnu eru Ásatrúarfélagið og Siðmennt. Ásatrúarfélagið hefur fjölgað meðlimum sem munu gefa um 8,3 m.kr. meira í sóknargjöld á næsta ári en fyrir tveimur árum og Siðmennt um 16,4 m.kr. Þessi félög eru augljóslega í virkri söfnun félaga, vilja styrkja sig fjárhagslega á því sem kalla mætti viðskiptamótel trú- og lífsskoðunarfélaga. Það fellst í því að sækja gjöld fyrir athafnir og safna félögum til að ná í sóknargjöldin. Og verja auknu afli í að safna fleiri nýjum félögum. Þetta eru þeir söfnuðir sem eru í virkasta trúboðinu, ef svo má segja.
Sem frægt varð var söfnuður Zuista misnotaður við söfnun sóknargjalda fyrir nokkrum árum. Tveir bræður lofuðu að endurgreiða sóknargjöldin til safnaðarmeðlima en stóðu ekki við það og notuðu fjármunina til eigin þarfa. Alla vega var þar engin starfsemi, tilbeiðsla né trúboð. Þótt nokkuð hafi fækkað í þessum söfnuði eru enn 548 zuistar skráðir og munu þeir að óbreyttu greiða þeim bræðrum um 7,3 m.kr. á næsta ári.
Þrátt fyrir samdrátt hjá Þjóðkirkjunni má Kristur nokkuð vel við una við úthlutun sóknargjalda. Söfnuðir kenndir við hann fá tæplega 95% af því sem á annað borð er úthlutað. Þá er búið að taka frá rúmlega 1/4 hluta pottsins sem fer til fjármálaráðherra. Engin kristin kirkja er í verulegri sókn, og það fækkar í þeim flestum. En fjölgun í kaþólsku kirkjunni og rétttrúnaðarkirkjunum vegur aðeins upp á móti fækkun annars staðar. Þar veldur mestu hingaðkoma fólks frá Austur-Evrópu.
Á eftir Kristi koma guðleysingjar og hin fornu goð norrænna manna með sitthvor tvö prósentin. Búdda er með 0,6% og Allah með 0,5%. Annað er svo smátt að það mælist varla.
Miðað við óbreytt sóknargjöld þá er potturinn nú rúmlega 5,1 milljarðar króna. Það er í raun skattur sem fólk getur ráðstafað sjálft, hvert um sig rúmlega 13 þúsund krónum. Ef fólk vill breyta skráningu sinni fyrir úthlutun næsta árs þarf að gera það fyrir 1. desember næstkomandi. Það er gert hér: Breyting á skráningu
Myndin er af fjármálaráðuneytinu, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er á innfelldu myndinni, æðsti prestur þessa næst stærsta safnaðar landsins í sóknargjöldum talið.