Hreggviður Jónsson aðaleigandi fyrirtækjasamsteypunnar Veritas vill nú selja, en hann sagði sig úr stjórn félagsins fyrr á árinu eftir ásakanir Vítalíu Lazarevu um kynferðisofbeldi. Veritas, sem að stofni til er Pharmaco, innkaupasamband apótekara, er stærsta lyfjafyrirtæki landsins, með tæplega 50% markaðshlutdeild.
Veritas velti um 28,2 milljörðum króna í fyrra og af þeirri veltu endaði 1,6 milljarður króna sem hagnaður. Auk lyfja versla dótturfyrirtæki Veritas með snyrtivörur, hjálpartæki og fleira.
Á seinni hluta síðustu aldar var lyfjainnflutningur annars vegar á hendi Lyfjaverslunar ríkisins, sem var einkavædd 1994 og er nú stór partur af Icepharma. Og hins vegar Pharmaco, sem var samvinnufélag apótekara. Á þeim árum fengu lyfjafræðingar úthlutað leyfum til að reka apótek, hver sitt og í eigin nafni. Þessu kerfi var síðan breytt og þá keyptu fyrst og fremst tvær keðjur upp öll apótekin og keðjurnar hafa síðan gengið kaupum og sölum.
Pharmaco var tvískipt, annars vegar innflutningur á lyfjum og hins vegar framleiðsla á samheitalyfjum. Um aldamótin keypti Björgólfur Thor Björgólfsson Parmaco og sameinaði við búlgarska lyfjaverksmiðju undir nafni Actavis, sem stækkaði næstu árin með yfirtökum á samheitalyfjafyrirtækjum víða um heim. Heildsala á lyfjum á Íslandi passaði ekki Actavis og sá hluti Pharmaco var seldur Hreggviði Jónssyni.
Hreggviður hefur síðan notað hagnaðinn af lyfjainnflutningnum til að kaupa upp önnur fyrirtæki. Þessi hagnaður er fyrst og fremst kominn af kaupum ríkisins á lyfjum, bæði beint til spítala og svo óbeint með niðurgreiðslu á kaupum almennings.
Fyrir kaupin á Pharmaco hafði Hreggviður auðgast nokkuð á kaupum á hlutabréfum í Hraðfrystihúsi Þórshafnar ásamt bróður sínum 1997, en kaupin voru gagnrýnd á sínum þar sem seljendur hafi ekki gert sér grein fyrir verðmæti þeirra.
Hreggviður var markaðsstjóri hjá Brimborg hf. 1988-1991, fór síðan í MBA nám í Harvard Business School, gerðist ráðgjafi hjá McKinsey & Company í Stokkhólmi á sviði stjórnunar og stefnumótunar að loknu námi 1993, og réðst síðan sem ráðgjafi til stjórnar Íslenska útvarpsfélagsins, varð síðar fjármálastjóri og síðar forstjóri þar. Hann hætti þegar gerð var rassía í höfuðstöðvum félagsins vegna skattrannsóknar 2002 og keypti heildsöluhluta Pharmaco stuttu síðar.
Erfitt er að meta verðmæti Veritas. Gengi félaga í kauphöllinni er hátt, stundum 10-15 föld EBITDA að frádregnum skuldum. Á slíkan mælikvarða gætu eigendur Veritas fengið 20-30 milljarða króna fyrir hlutaféð. Það er hreinn hagnaður Hreggviðs og annarra eigenda, því þeir hafa fyrir löngu greitt sér út upphaflega kaupverðið sem arð og miklu meira en það.
Myndin er af Hreggviði Jónssyni frá þeim tíma að hann var formaður Viðskiptaráðs. Þá stóð hann meðal annars fyrir úttekt McKinsey á hagvaxtarmöguleikum Íslands. Í þeirri skýrslu var lagt til að fjármagnið fengi að umbreyta Íslandi í takt við eigin þarfir.